Innlent

Segir engan ágreining innan ríkisstjórnar um RÚV

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra.
Illugi Gunnarsson, mennta- og menningarmálaráðherra. Vísir/GVA
Fullyrt er að ágreiningur sé milli ríkisstjórnarflokkanna um fjárveitingar til RÚV. Sjálfstæðismenn séu tilbúnir að auka framlög til stofnunarinnar en Framsóknarflokkurinn ekki. Illugi Gunnarsson mennta- og menningarm á lar áð herra vísar þessu á bug.

Illugi og Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, hafa komið því á framfæri við fulltrúa Ríkisútvarpsins að þeir sjálfir séu mun viljugri til að koma til móts við fjárhagsvanda félagsins en samstarfsflokkur þeirra í ríkisstjórn. 

Þetta kemur fram í dagblaðinu Stundinni en blaðið fullyrðir að þetta hafi komið fram á vinnufundi stjórnar RÚV hinn 22. janúar. Var þar útvarpsstjóra og stjórnarformanni falið  funda um fjármál Ríkisútvarpsins með forsætisráðherra.

Stundin rifjar upp að forystumenn í Framsóknarflokknum hafa ýmist fullyrt eða gefið í skyn í opinberri umræðu að lítill vilji sé til að hlúa að Ríkisútvarpinu meðan umfjöllun þess og efnistök eru flokknum ekki að skapi. 

Þess skal tekið fram að fjárlög til RÚV hafa þegar veri ákveðin í fjárlagafrumvarpi sem samþykkt var í desember en stofnunin lagar sig nú  breyttum veruleika vegna skertra fjárframlaga. 

Illugi segir ekki vera neinn ágreining innan ríkisstjórnarinnar um málið. „Við settum af stað, núna fyrir nokkrum vikum síðan, vinnuhóp sem í eru embættismenn frá fjármálaráðuneytinu og mínu ráðuneyti og forsætisráðuneytinu þar sem við vildum glöggva okkur á rekstrartölunum, þeirri stöðu sem er komin upp. Við þurfum líka að skoða betur hvernig sú staða sem uppi er hefur myndast. Við höfum verið að kalla eftir þessum gögnum og eins og þú manst þá var sett skilyrðing í fjárlögunum varðandi framlag upp á 180 milljónir eða svo að menn sæju til lands með reksturinn. Það er sú vinna sem er í gangi núna,“ segir Illugi.

„Ég get staðfest við þig að við höfum fengið mjög skýr skilaboð, bæði beint og óbeint, og viðvaranir um að RÚV verði að fara að hegða sér betur gagnvart ríkisstjórninni ef koma eigi til móts við okkur fjárhagslega,“ segir einn af viðmælendum Stundarinnar. „Þú sérð hvernig þau tala á opinberum vettvangi og þá geturðu rétt ímyndað þér hvað þau leyfa sér að segja fyrir luktum dyrum.

Illugi segir aðalatriðið vera að ekki sé uppi ágreiningur milli ríkisstjórnarflokkanna um fjárveitingar til RÚV. „Hitt er alveg augljóst að, og ég hef margsagt, að það kemur aldrei til greina að ræða í sömu andránni skoðanir manna á fréttastofunni og síðan fjárveitingar til þessarar stofnunar. Þingmenn eiga og geta verið frjálsir af því að hafa sína skoðun á fréttastofunni. Það er bara eðlilegur hluti af opnu og lýðræðislegu samfélagi. En að menn séu að tengja það við fjárveitingar held ég að gangi ekki.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×