Innlent

Segir ekki sannfærandi að tala um að allt gangi betur á Íslandi þegar börnum sem líður illa hefur fjölgað

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Svandís Svavarsdóttir
Svandís Svavarsdóttir Vísir/Daníel
Þrír þingmenn Vinstri grænna ræddu nýja skýrslu UNICEF um efnislegan skort barna á Íslandi undir liðnum störf þingsins á Alþingi í dag. Í skýrslunni kemur meðal annars fram að gera má ráð fyrir að 6100 börn hér á landi líði skort og þar af líði 1586 börn verulegan skort. Þá hefur hlutfall þeirra barna sem búa við skort aukist mjög. Árið 2009 liðu 4 prósent barna á Íslandi skort en árið 2014 var hlutfallið komið upp í 9,1 prósent.

Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir sagði niðurstöður skýrslunnar óásættanlegar. Þá sagði hún margar spurningar vakna við lestur skýrslunnar sem leita þyrfti svara við. Þannig væru börn ungra foreldra líklegri til að líða skort og kanna þyrfti hvers vegna það væri.

„Það er ástæða til að hafa áhyggjur af þessum niðurstöðum því engin börn á Íslandi eiga að líða skort. Það eiga öll börn að hafa sömu tækifæri til lífs og þroska eins og stjórnarskrá og Barnasáttmáli Sameinuðu þjóðanna kveða á um,“ sagði Bjarkey meðal annars.

Undir orð hennar tók Lilja Rafney Gunnarsdóttir og nefndi meðal annars börn atvinnulausra en þau eru, ásamt börnum sem eiga foreldra sem eru í minna en 50 prósent starfshlutfalli, líklegust til að líða skort.

„Börn við þessar aðstæður, þau einangrast, þau geta ekki haft sama aðgengi að tómstundum, eru vannærð jafnvel og hafa lítinn stuðning félagslega. Skortur í æsku getur haft mikil áhrif til framtíðar fyrir þessi sömu börn. Þess vegna segi ég að við sem störfum hér á Alþingi, við getum haft mikil áhrif, hvernig skattastefnan er hverju sinni, sem snýr að jöfnuði, hvernig húsnæðisstefnan er hverju sinni [...]“

Svandís Svavarsdóttir gerði svo skýrsluna einnig að umtalsefni sínu en hún sagði fjölgunina í þeim fjölda barna sem nú búa við efnislegan skort á Íslandi gerast í samhengi við ákvarðanir og vilja stjórnvalda á hverjum tíma.

„Meðal annars þær ákvarðanir að lækka barnabætur, að lækka vaxtabætur, að hækka matarskatt og að hækka ekki örorkubætur til jafns við aðra á vinnumarkaði. Allt þetta hefur áhrif á daglegt líf og kjör barna og allt þetta eykur skort í lífi íslenskra barna. Virðulegur forseti. Það er algjörlega óásættanlegt annað en að stjórnvöld skjóti nú á sérstökum fundi og að afurðin verði ekkert minni en það að þar verði lögð fram áætlun um útrýmingu fátæktar barna á Íslandi. Við eigum ekki að líða það að börn líði skort. Það er ekki sannfærandi þegar hæstvirtur forsætisráðherra eða hæstvirtur fjármálaráðherra berja sér á brjóst í áramótaávörpum og í áramótaþáttum hér og tala um að allt gangi betur á Íslandi þegar börnum sem líður illa hefur fjölgað svo um munar,“ sagði Svandís.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×