Viðskipti erlent

Segir Amazon helsta keppinaut Google

Atli Ísleifsson skrifar
Eric Schmidt, stjórnarformaður Google.
Eric Schmidt, stjórnarformaður Google. Vísir/AFP
Eric Schmidt, stjórnarformaður bandaríska netrisans Google, segir helsta keppinaut fyrirtækisins á sviði netleitar vera netverslunarrisann Amazon.

Schmidt segist ekki sammála því að Google njóti einokunarstöðu á sviði leitar á netinu.

„Margir halda að helsti keppinautur okkar sé Bing eða Yahoo. En, í raun og veru er mesti keppinautur okkar Amazon,“ sagði Schmidt í ræðu sem hann hélt í Berlín.

Í frétt BBC segir að Evrópusambandið rannsaki nú leitarvélar Google eftir að fjölda kvartana hafa borist.

Google komst hjá því að greiða fleiri milljarða króna í sekt eftir að fyrirtækið samþykkti að keppinautar fyrirtækisins - fyrirtæki á borð við Microsoft - skyldu njóta jafnræðis í leitarniðurstöðum Google.

Schmidt benti þó á að samkeppni í netheimum sé ekki ávallt skýr og skorinorð. „Fólk hugsar ekki alltaf um Amazon sem leitarvél, en ef þú leitar að einhverju til að kaupa þér, þá leitar þú oftar en ekki að því á Amazon. Þeir einbeita sér augljóslega meira að viðskiptahlið jöfnunnar, en í grunninn þá eru þeir að svara spurningum og leitum viðskiptavina, alveg eins og við.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×