Innlent

Segir ákvörðun ráðherra koma á óvart

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Rektor Háskóla Íslands undrast ákvörðun Illuga Gunnarssonar, mennta- og menningarmálaráðherra, um að flytja lögregluskólann norður á Akureyri þvert á niðurstöðu matsnefndar. Hann segir mikla vinnu hafa verið lagða í útboðið og að aðstaða á suðvesturhorni landsins sé þegar hentug fyrir lögreglunámið.

Háskóli Íslands var talinn hæfastur til að taka að sér námið samkvæmt matsnefnd Ríkiskaupa sem annaðist ferlið. Ákveðið var að fela Ríkiskaupum að finna framkvæmdaaðila á háskólastigi sem gæti tekið við lögreglunáminu eftir að ákveðið var að færa það á háskólastig. Sett var á laggirnar matsnefnd og skiluðu þrír umsækjendur tilkynningu um þátttöku. Háskóli Íslands skoraði hæst hjá matsnefnd, Háskólinn á Akureyri kom annar og Háskólinn í Reykjavík var þriðji.

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, segir ákvörun menntamálaráðherra hafa komið sér á óvart.

„Já þetta kom á óvart. Við lögðum gríðarlega vinnu í þetta tilboð okkar í námið,“ segir Jón Atli. „Þetta var um sextíu síðna plagg og um fjörutíu manns komu að þessu á sumarleyfistíma. Við bjuggumst við því að niðurstaða nefndarinnar myndi vega þungt og HÍ skorar 9,5 af 10 mögulegum svo að þetta er glæsileg niðurstaða. Þannig að það eru vonbrigði að þetta skuli hafa farið svona en ég vil engu að síður nýta tækifærið og óska Háskólanum á Akureyri til hamingju með að fá námið,“ segir hann.

Í ljósi þess að flestir lögreglumenn starfa á suðvesturhorni landsins og að greinin hefur gjarnan glímt við mönnunarvanda er það æskilegt að flytja starfsemi námsins norður á land?

„Það er erfitt fyrir mig að tjá mig um það en ég get sagt að við lögðum þarna fram mjög góða áætlun og það er niðurstaða nefndarinnar. Það er þarna líka verkleg aðstaða sem við buðum upp á hjá Keili í Reykjanesbæ sem lögreglan er nú þegar að nota. Við lögðum allt í þetta og vorum tilbúin til að taka þetta að okkur.“

Hann segir að ef aðilar hefðu vitað það fyrr að byggðarsjónarmið hefðu slíkt vægi hefði ferlið vafalaust verið öðruvísi.

„Það er mjög vandasamt að koma þessu námi af stað. Gera samning 1. september og fá inn nemendur og það verður erfitt fyrir hvern þann sem tekur þetta að sér. Ég hefði talið það eðlilegt að gera þetta miklu fyrr fyrst að byggðarsjónarmið ráða svona þungt við þessa ákvörðun. Þá hefði átt að tilkynna það fyrirfram og bjóða svo þeim sem eru annarsstaðar en hér að taka við náminu,“ segir Jón Atli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×