Innlent

Segir aðildarumsóknina sundra þjóðinni

Mynd/GVA
Stjórn Samtaka afurðastöðva í mjólk og kjöti, SMK, vill að Alþingi beri að leggja aðildarumsókn að Evrópusambandinu til hliðar. Samtökin segja þetta nauðsynlegt nú þar sem mikil óvissa ríki um myntsamstarfið, uppbyggingu og innra skipulag ESB. SMK starfa innan Samtaka iðnaðarins og var ályktun þessa efnis samþykkt í dag. Formaður þeirra er Guðni Ágústsson, fyrrverandi formaður Framsóknarflokksins.

„Samtökin telja að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins horft til framtíðar,“ segir í ályktuninni. „Við núverandi aðstæður innan Evrópusambandsins, þar sem grundvallarmál, sem snerta framtíð myntbandalagsins og uppbyggingu og skipulag Evrópusambandsins sjálfs eru til umræðu meðal aðildarþjóða og niðurstöðu ekki að vænta í fyrirsjáanlegri framtíð er rétt af Alþingi að leggja aðildarumsóknina til hliðar.“

Þá segir að ljóst sé að samningaviðræður snúist um afsal á yfirstjórn fiskveiða og fiskimiða og samningsrétti við aðrar þjóðir um skiptingu mikilvægra deilistofna svo og um grundvallarbreytingar í rekstri landbúnaðar á Íslandi, „sem reynslan sýnir að geta beinlínis stofnað veigamiklum þáttum hans í voða.“

Að lokum er sagt að aðildarviðræðunum fylgi mikill kostnaður og aðildinni enn meiri kostnaður ef að yrði.  „Ísland þarf nú fyrst og fremst á að halda  samstöðu og samtakamætti til að byggja upp og þróa grundvallaratvinnuvegi þjóðarinnar. Aðildarumsóknin sundrar þjóðinni og gerir henni ókleift að ná saman um aðkallandi verkefni.“ segir að lokum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×