Innlent

Segir aðför LÍN ekki samræmast stefnu Framsóknarflokksins

Stefán Ó. Jónsson skrifar
LÍN er með aðsetur í Borgartúni.
LÍN er með aðsetur í Borgartúni. Vísir/valgarður
Samband ungra Framsóknarmanna harmar aðför „Lánasjóðs íslenskra námsmanna að íslenskum námsmönnum erlendis,“ eins og það er orðað í ályktun frá sambandinu.

Þar segist sambandið að þrengt hafi verið að möguleikum íslenskra ungmenna til háskólanáms erlendis með markvissum hætti á grundvelli óvandaðra vinnubragða. „Framganga stjórnar LÍN á þessu kjörtímabili gagnvart námsmönnum erlendis með samþykki menntamálaráðherra samræmist ekki stefnu Framsóknarflokksins,“ segir sambandið.

Stjórn SUF skorar á ríkisstjórn Sigurðar Inga, og þingmenn allra flokka að láta sig þessi mál varða og samþykkja ekki jafn slíkar kerfisbreytingar. „Um gildi þess að gera sem flestum þjóðfélagshópum kleift að sækja sér menntun erlendis þarf ekki að rökræða,“ stendur í ályktuninni.

Samkvæmt samþykktri stefnu Framsóknarflokksins þá telur hann „mikilvægt fyrir samfélagið að ný þekking og hugmyndastraumar í greinum háskólastigsins berist jafnt og þétt til landsins.“ „Að því marki ályktaði Framsóknarflokkurinn, að mikilvægt væri „að íslenska háskólasamfélagið hvetji nemendur til framhaldsnáms á háskólastigi erlendis,“ eins og þar stendur.

„Stjórn SUF tekur að fullu undir og styður málfluttning Sambands íslenskra námsmanna erlendis (SÍNE). Stjórn SUF vísar jafnframt á bug þeim röksemdum LÍN um að jafna beri stöðu innlendra og erlendra námsmanna, enda getur falist gróf mismunun í því að jafna stöðu þeirra í krónum talið sem búa við gerólíkar aðstæður. Nægir þar að nefna stuðningskerfi og möguleika til aukatekna sem innlendir námsmenn eiga að jafnaði góðan aðgang að, ólíkt námsmönnum á fjarlægum slóðum í framandi menningu.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×