Fótbolti

Segir að Terry hafi fengið ný hnífapör á hverjum degi

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
John Terry er kóngurinn í Chelsea og hefur verið um árabil.
John Terry er kóngurinn í Chelsea og hefur verið um árabil. Vísir/Getty
Conor Clifford, írskur miðjumaður sem var á mála hjá Chelsea sem táningur, segir að John Terry hafi fengið konunglega meðferð hjá félaginu á meðan hann var þar.

Clifford gekk í raðir Chelsea sextán ára og var hjá því næstu sex árin. Hann spilaði aldrei með aðalliði Chelsea og var lánaður til fimm mismunandi félaga á samningstímanum.

Clifford er í dag nýgenginn til liðs við Dundalk í heimalandinu en liðið sló í gegn í Evrópudeild UEFA í haust. Hér á landi var vel fylgst með liðinu eftir að það sló FH úr leik í forkeppninni.

Hann segir að hann hafi verið undir verndarvæng Frank Lampard hjá félaginu og leitað ráða hjá honum margsinnis. Þá hafi hann einnig æft reglulega með aðalliði félagsins þegar Carlo Ancelotti var stjóri Chelsea.

Clifford var fyrirliði unglingaliðs Chelsea sem vann bikarmeistararatitil árið 2010.Vísir/Getty
„En John Terry var aðalmaðurinn á svæðinu. Hann var kóngurinn,“ sagði Clifford í viðtali við írska ríkissjónvarpið.

„Hann fékk meira að segja glæný hnífapör í hvert einasta skipti sem við borðuðum hádegismat.“

Clifford naut þess að vera hjá Chelsea á sínum tíma en er nú byrjaður að einbeita sér að nýjum áskorunum með Dundalk, en nýtt tímabil í írsku deildinni hefst á föstudag.

Dundalk hefur unnið írska meistaratitilinn þrjú ár í röð og keppir í forkeppni Meistaradeildar Evrópu í sumar á nýjan leik, rétt eins og FH-ingar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×