Enski boltinn

Segir að ekki megi afskrifa Liverpool og Karius eftir klúðrið gegn Bournemouth

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Loris Karius á nú að setjast aftur á bekkinn að margra mati.
Loris Karius á nú að setjast aftur á bekkinn að margra mati. vísir/getty
Frábær byrjun á tímabilinu hjá Liverppol er eitthvað sem stuðningsmenn eiga að vera spenntir yfir og óþarfi er að tapa sér í neikvæðni eftir tapið ótrúlega gegn Bournemouth um síðustu helgi að sögn Neil Mellor, fyrrverandi leikmanns liðsins.

Lærisveinar Jürgens Klopps eru aðeins búnir að tapa tveimur leikjum af 18 í öllum keppnum á leiktíðinni en annað tapið kom um helgina þar sem Liverpool missti 3-1 stöðu í 4-3 tap á síðustu fimmtán mínútum leiksins.

Þrátt fyrir allt er Liverpool í þriðja sæti í ensku úrvalsdeildinni með sjö stigum meira en á sama tíma á síðustu leiktíð og vill Mellor að menn horfi á jákvæðu hliðina á þessu öllu saman.

„Liverpool er enn í sterkri stöðu. Eftir að liðið tapaði fyrir Burnley í byrjun leiktíðar spilaði það 15 leiki í röð án þess að tapa. Það hefur verið gaman að horfa á þetta lið og það er búið að valta yfir margan andstæðinginn,“ segir Mellor í viðtali á Goal.com.

„Vissulega var tapið gegn Bournemouth svekkjandi en manni líður eins og liðið muni svara þessu á sama hátt og það gerði eftir tapið gegn Burnley.“

Þýski markvörðurinn Loris Karius hefur fengið sinn skerf af gagnrýni síðustu vikur og sérstaklega eftir tapið um helgina. Nú keppast sömu menn og vildu ólmir losna við Simon Mignolet úr markinu að Belginn fái stöðuna sína aftur.

„Þolinmæði er sjaldséð í nútíma fótbolta því allt snýst þetta um úrslit. Það verður samt að gefa mönnum tíma til að ná áttum ef þeir eiga að þróast og verða betri,“ segir Nellor.

„Jordan Henderson var gagnrýndur þegar hann kom og sama gildir um Lallana og Firmino. Nú eru þeir allir lykilmenn. Þetta verður alveg eins hjá Karius. Hann er ungur markvörður sem var að mæta í deildina og er að aðlagast. Það verður að sýna honum þolinmæði,“ segir Neil Mellor.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×