Innlent

Segir að borgaryfirvöld neiti að funda með íbúum við Borgartún

Stefán Árni Pálsson skrifar
visir/daníel
Á síðasta fundi borgarráðs var felld tillaga borgarráðsfulltrúa Sjálfstæðisflokksins um að deiliskipulagi Borgartúns 28 og 28A verði frestað þar til fundað hefði verið með íbúum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Júlíusi Vífli Ingvarssyni, borgarfulltrúa Sjálfstæðiflokksins í Reykjavík.

„Það er eiginlega óskiljanlegt að fulltrúar meirihlutaflokkanna í borgarstjórn skuli hafna því að eiga samtal við það fólk sem hefur mótmælt skipulagsbreytingum í Borgartúni,“ segir Júlíus.

Ennfremur segir hann að það sé engu líkara að þeir óttist að tala við borgarbúa.

„Athugasemdir íbúanna eru skýrar og vel rökstuddar en samt er ekkert tillit tekið til þeirra. Fyrir fjórum vikum lögðu fulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu um að haldinn yrði samráðsfundur með íbúum og síðan hefur afgreiðsla skipulagsins verið í frestun. Af hverju var þá tíminn ekki notaður til að hlusta á íbúa og leitað sátta við þá? Það getur aldrei verið til annars en góðs að kynna sér öll sjónarmið og eiga samráð. Ég mun taka málið og þessi vinnubrögð upp í borgarstjórn á þriðjudaginn“.

Við afgreiðslu málsins í borgarráði 11. september bókuðu borgaráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins eftirfarandi:

Fyrir þremur vikum lögðu borgarráðsfulltrúar Sjálfstæðisflokksins fram tillögu í borgarráði um að haldinn yrði opinn upplýsinga- og samráðsfundur með íbúum og öðrum hagsmunaaðilum vegna auglýstra breytinga á deiliskipulagi á lóð nr. 28 og 28a við Borgartún.

Lagt var til að deiliskipulagið yrði ekki afgreitt fyrr en að loknum þeim fundi. Sambærileg tillaga var lögð fram í Umhverfis og skipulagsráði 13. ágúst sl. Frá því tillagan var fyrst lögð fram eru því liðnar um fjórar vikur.

Allan þann tíma hefur málið verið í frestun. Furðu sætir að í stað þess að nýta tímann til að tala við borgarbúa er þagað þunnu hljóði og haldið áfram með umdeilt mál sem mótmælt hefur verið kröftuglega. Einföld tillaga um að borgaryfirvöld hafi samráð við borgarbúa er felld með öllum atkvæðum borgarráðsfulltrúa meirihlutans. Allt tal sömu fulltrúa um að taka upp meira samráð við borgarbúa er ekki trúverðugt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×