Viðskipti innlent

Seðlabankinn segist skammaður sama hvað

Ingvar Haraldsson skrifar
Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur og Már Guðmundsson seðlabankastjóri.
Þórarinn G. Pétursson aðalhagfræðingur og Már Guðmundsson seðlabankastjóri. vísir/gva
Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabanka Íslands, segir það hafa legið fyrir að Seðlabankinn myndi liggja undir skömmum sama hvort hann héldi stýrivöxtum háum eða lágum til að bregðast við launahækkunum sem fylgdu nýlegum kjarasamningum. Seðlabankinn tilkynnti í gær, mörgum að óvörum, að stýrivextir yrðu lækkaðir um 0,5 prósentustig í 5,25 prósent. „Vegna þess að þegar við bregðumst við þessum launahækkunum með því að hafa vaxtastigið hærra og segjum að okkur takist fullkomlega það sem við ætlum að gera, að halda verðbólgumarkmiði, þá munum við heyra raddirnar: Bíddu, til hvers voruð þið að þessu, verðbólgan er bara í markmiði, var þetta ekki algjör óþarfi?“ Seðlabankinn hefði fengið sömu skammir hefðu stýrivextir ekki verið hækkaðir og verðbólga hefði hækkað í kjölfarið.

Seðlabankinn hefur legið undir gagnrýni fyrir að hafa ofmetið hættuna af verðbólguhækkun og brugðist of hart við með stýrivaxtahækkunum. Seðlabankinn hækkaði stýrivexti Seðlabankans úr 4,5 prósentum í 5,75 prósent á síðasta ári til að mæta væntri hækkun verðbólgu. Verðbólga hefur hins vegar verið á niðurleið og mældist verðbólga 1,1 prósent í júlí, vel fyrir neðan 2,5 prósenta verðbólgumarkmið Seðlabankans.

Í verðbólguspá Seðlabankans frá því í maí bjóst bankinn við 1,9 prósenta verðbólgu á þriðja ársfjórðungi og 3,0 prósenta verðbólgu á síðasta ársfjórðungi þessa árs. Seðlabankinn býst nú við að verðbólga verði 2,2 prósent í lok ársins.

Peningastefnunefndin sagði lága verðbólgu erlendis, 6,5 prósenta styrkingu á gengi krónunnar og hagstæðari viðskiptakjör eiga stóran þátt í að skýra lægri verðbólgu. Auk þess hefðu stýrivaxtahækkanirnar virkað sem skyldi og stuðlað að lægri verðbólgu þar sem hærri vextir hefðu valdið hægari útlánavexti og auknum sparnaði sem dragi úr umsvifum í hagkerfinu. Það hefði stuðlað að hærri viðskiptaafgangi og sterkara gengi krónunnar. Már Guðmundsson seðlabankastjóri sagði hugsanlegt að stýrivextir hefðu verið of háir. Hins vegar verði að taka tillit til þess að óvarlegt hefði verið að gera ráð fyrir jafn mikilli gengisstyrkingu krónunnar og orðið hefði í sumar, upp á 6,5 prósent. Þá væru vísbendingar um að þar til nýlega hefði Seðlabankann skort trúverðugleika um að hann myndi ekki gera allt sem í hans valdi stæði til að halda verðbólgunni niðri.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu








Fleiri fréttir

Sjá meira


×