Viðskipti innlent

Seðlabankinn að skoða undanþágu fyrir lífeyrissjóðina

Aðalsteinn Kjartansson skrifar
Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir viðræður við Seðlabanka Íslands hafa staðið yfir í mjög langan tíma.
Framkvæmdastjóri Landssamtaka lífeyrissjóða segir viðræður við Seðlabanka Íslands hafa staðið yfir í mjög langan tíma. Vísir/Pjetur
Seðlabanki Íslands hefur til skoðunar að heimila lífeyrissjóðum að fjárfesta erlendis. Sjóðirnir hafa ekki haft heimild til þess síðan að gjaldeyrishöft voru sett á hér á landi árið 2008.



Þórey Þórðardóttir, framkvæmdastjóri landssamtaka lífeyrissjóða, segir að viðræður hafi staðið lengi yfir við seðlabankanna um að veita þessa heimild en sjóðirnir hafa undanfarin ár eingöngu haft tækifæri til að fjárfesta innanlands.



„Viðræður hafa staðið yfir í mjög langan tíma og það er sökum þess að lífeyrissjóðirnir hafa verulegar áhyggjur af því að geta ekki dreift áhættunni og vera eingöngu með tækifæri til að fjárfesta innanlands,“ segir hún.

„Því höfum við reynt að vita hver staðan er og nú virðist sem Seðlabankinn sé að vinna í því að lífeyrissjóðunum sé veitt leyfi fyrir einhverjum fjárfestingum erlendis og slíkt gæti komið til framkvæmda á seinni hluta þessa árs,“ segir hún.




Þórey segir ekki ljóst hvaða upphæðir til umræðu eru að heimila sjóðunum að fjárfesta fyrir. Eftir viðræðurnar, meðal annars við seðlabankastjóra, sé hins vegar tilefni til bjartsýni.

Í tilkynningu sem landssamtökin birtu í gær segir að heimild til fjárfestinga erlendis væri til þess fallin að draga úr uppsafnaðri erlendri fjárfestingarþörf lífeyrissjóða þegar kemur að losun hafta.




Í skriflegu svari við fyrirspurn fréttastofu staðfestir seðlabankinn að til skoðunar sé hjá bankanum að veita lífeyrissjóðunum heimild til erlendra fjárfestinga.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×