Erlent

Seðlabanki Rússlands aðstoðar

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Alþjóðlegir sérfræðingar hafa ekki treyst sér til að fara að flaki malasísku farþegavélarinnar sem uppreisnarmenn í austanverðri Úkraínu eru taldir hafa skotið niður.
Alþjóðlegir sérfræðingar hafa ekki treyst sér til að fara að flaki malasísku farþegavélarinnar sem uppreisnarmenn í austanverðri Úkraínu eru taldir hafa skotið niður. fréttablaðið/AP
Rússneski seðlabankinn hyggst veita rússneskum fjármálafyrirtækjum sem verða fyrir barðinu á refsiaðgerðum Bandaríkjanna og Evrópusambandsins fjárhagsaðstoð.

Í tilkynningu seðlabankans segir að hann muni „grípa til viðeigandi aðgerða“ til að styðja þær stofnanir sem refsiaðgerðunum er beint gegn.

Bandarísk stjórnvöld segja að nærri þriðjungur eigna rússneska bankakerfisins sæti nú hömlum vegna refsiaðgerðanna, sem settar hafa verið í kjölfar þess að malasísk farþegavél var skotin niður yfir austurhluta Úkraínu.

Alþjóðlegir eftirlitsmenn hafa ítrekað reynt að komast að flaki vélarinnar, en jafnan horfið frá af öryggisástæðum.

Nú síðast í gær ákváðu eftirlitsmenn á vegum Öryggis- og samvinnustofnunar Evrópu að hverfa frá borginni Dónetsk eftir að hafa rætt þar við uppreisnarmenn.

Andrí Lysenkó, talsmaður Úkraínustjórnar, fullyrti að uppreisnarmenn hefðu lagt jarðsprengjur þar sem farið er inn á svæðið, þar sem flakið er. „Þetta gerir alþjóðlegum sérfræðingum ókleift að sinna starfi sínu,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×