Kjartan Bjarni og Finnur Þór í kvöldfréttum Stöðvar 2: "Ein risastór spurning sem eftir stendur“

„Í þessari skýrslu sem við skiluðum í dag stendur eftir ein stór spurning. Hún er sú hverjir áttu aflandsfélagið Dekhill Advisors Ltd sem fær til sín rúmlega 46 milljón bandaríkjadala af þessum fjárhagslega ávinningi af viðskiptunum?,“ spyr Kjart­an Bjarni Björg­vins­son, formaður rann­sókn­ar­nefnd­ar Alþing­is, sem rann­sakaði þátt­töku þýska bank­ans Hauck & Auf­häuser í kaup­um á 45,8 prósent hlut ríkisins í Búnaðarbankanum, ólíkt því sem haldið var fram allt frá upphafi. „Okkur tókst ekki að upplýsa það til fulls með óyggjandi hætti. En við teljum hinsvegar ljóst að í íslensku samfélagi eru aðilar sem vita þetta, hafa fulla vitneskju um þetta og er ekki eðlilegt að á þessu stigi, þegar allt þetta hefur verið opinberað í dag, að þessir aðilar stígi einfaldlega fram og greini frá þessu?“ Ítarleg umfjöllun verður í fréttatíma Stöðvar 2 í kvöld um afdráttarlausa niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis að stjórnvöld, fjölmiðlar og almenningur hafi skipulega verið blekkt í aðdraganda og kjölfar sölunnar á Búnaðarbankanum. Í skýrslunni segir enn fremur að ítarleg skrifleg gögn sýni með óyggjandi hætti að þýski bankinn Hauck & Aufhäuser, Kaupþing hf. á Íslandi, Kaupthing Bank Luxembourg og hópur manna sem vann fyrir og í þágu Ólafs Ólafssonar fjárfestis notuðu leynilega samninga til að fela raunverulegt eignarhald þess hlutar sem Hauck & Aufhäuser átti í orði kveðnu. Við fáum viðbrögð frá Valgerði Sverrisdóttur, bankamálaráðherra á þeim tíma sem viðskiptin áttu sér stað og Geir H. Haarde, sem gegndi þá stöðu fjármálaráðherra. Við heyrum í fulltrúum allra stjórnmálaflokkanna og greinum frá viðbrögðum Ólafs Ólafssonar, pottinum og pönnunni í viðskiptunum umdeildu. Þá koma til okkar í myndver þeir Kjartan Bjarni Björgvinsson, formaður rannsóknarnefndar Alþingis og Finnur Þór Vilhjálmsson, starfsmaður nefndarinnar, í ítarlegt viðtal. Ekki missa af kvöldfréttum Stöðvar 2, sem hefjast að vanda á slaginu 18.30.

2109
00:40

Vinsælt í flokknum Fréttir