Körfubolti

Sebrahestarnir úr vesturbænum oft hátíðarmatur í Ljónagryfjunni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Pavel Ermolinskij og félögum hefur gengið illa í Ljónagryfjunni á undanförnum misserum.
Pavel Ermolinskij og félögum hefur gengið illa í Ljónagryfjunni á undanförnum misserum. vísir/anton
Njarðvíkingar fá tækifæri til að hitamæla liðið í kvöld þegar liðið fær Íslands- og bikarmeistara KR í heimsókn í Ljónagryfjuna í Njarðvík.

Njarðvíkingar hafa unnið fimm af síðustu sex leikjum sínum í Domino´s deildinni eða jafnmarga deildarsigri og KR-ingar frá og með 13. janúar. Njarðvík hefur unnið bæði Tindastól og Stjörnuna á þessum tíma og getur nú lokað toppliða hringnum með sigri í kvöld.

Leikur Njarðvíkur og KR hefst klukkan 20.00 í kvöld og verður sýndur beint á Stöð 2 Sport. Þetta er lokaleikur 19. umferðarinnar.

Sebrahestarnir úr Vesturbænum hafa oft verið hátíðarmatur í Ljónagryfjunni á síðustu árum því KR-liðið hefur margoft verið þar í vandræðum undanfarin fjögur tímabil. KR-ingar hafa tapað fimm sinnum í Njarðvík á Íslandsmóti (4) eða í bikar (1) í þjálfaratíð Finns Freys Stefánssonar eða oftar en í öllum öðrum húsum fyrir utan DHL-höllina.

KR-liðið hefur samt unnið deildarleiki sína í Ljónagryfjunni undanfarin ár en tapað leikjunum í úrslitakeppni og bikarkeppni í húsinu. Við þetta bætist vandræðalega frammistaða KR-liðsins í fyrri leik liðanna þar sem Njarðvíkingar unnu ellefu stiga sigur í DHL-höllinni og héldu meisturunum í aðeins 61 stigi.

KR-ingar töpuðu óvænt á Akureyri í síðasta útileik sínum en svöruðu því með sannfærandi sigri á ÍR í síðustu umferð. Sigur kemur Vesturbæingum enn nær deildarmeistaratitlinum en heimamenn í Njarðvík eru í mikilli baráttu um að fá að vera með í úrslitakeppninni. Það verður allavega saga til næsta bæjar verði Njarðvíkingar með fullt hús á móti Íslandsmeisturunum í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×