Enski boltinn

Seaman: Cech getur unnið titilinn fyrir Arsenal

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Petr Cech ver mark Arsenal á næstu leiktíð.
Petr Cech ver mark Arsenal á næstu leiktíð. vísir/getty
David Seaman, fyrrverandi markvörður Arsenal og enska landsliðsins í fótbolta, telur að Petr Cech geti verið maðurinn sem vinnur Englandsmeistaratitilinn fyrir Arsenal.

Cech batt enda á ellefu ára dvöl sín hjá Chelsea í gær þegar hann skrifaði undir langtíma samning við Arsenal eftir ríflega 400 leiki fyrir bláliðana í Lundúnaborg.

Seaman fagnar því að nú verði smá stöðugleiki í markvarðarstöðunni hjá Arsenal sem hefur ekki verið síðan Jens Lehmann yfirgaf félagið árið 2008.

Enski landsliðsmarkvörðurinn fyrrverandi, sem vann átta titla með Arsenal frá 1990-2003, segir að Chelsea gæti hafa gert mikil mistök með að láta hann fara til Arsenal.

„Missir Chelsea gæti orðið, og verður líklega, eitthvað sem Arsenal græðir á,“ segir Seaman í viðtali við BreatheSport.

„Að mínu mati gætu þessi kaup ráðið úrslitum um það hvaða lið vinnu deildina og hvaða lið verður í öðru sæti á næstu leiktíð,“ segir David Seaman.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×