Fótbolti

Scolari hættur með Brasilíu

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Vísir/Getty
Samkvæmt brasilísku sjónvarpsstöðinni Globo TV hefur Luiz Felipe Scolari landsliðsþjálfari sagt af sér.

Scolari er 65 ára gamall og stýrði Brasilíu til heimsmeistaratitils árið 2002 eftir sigur á Þýskalandi í úrslitaleik, 2-0.

Hann tók aftur við liðinu árið 2012 og undir hans stjórn vann Brasilíu Álfukeppnina í fyrra. En liðið stóð ekki undir væntingum á HM í heimalandinu og tapaði síðustu tveimur leikjum sínum samanlagt, 10-1.

Mestu munaði um risatap gegn Þýskalandi, verðandi heimsmeisturum, í undanúrslitum keppninnar, 7-1, en það var stærsta tap brasilíska landsliðsins frá upphafi og fyrsta tap liðsins á heimavelli í mótsleik í 39 ár.

Brasilía tapaði svo, 3-0, fyrir Hollandi í leiknum um þriðja sæti keppninnar. Eftir leikinn sagði hann að framtíð hans væri í höndum forráðamanna brasilíska knattspyrnusambandsins.

Samningur Scolari átti að renna út eftir keppnina og sagði í frétt Globo TV að afsögn hans yrði staðfest í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×