Enski boltinn

Scholes: United eyddi 220 milljónum og er verra

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Scholes er óhræddur að gagnrýna sitt gamla félag.
Scholes er óhræddur að gagnrýna sitt gamla félag. vísir/getty
Paul Scholes hefur verið duglegur að skjóta á Louis van Gaal síðan sá hollenski settist í knattspyrnustjórastólinn hjá Manchester United.

Scholes, sem er í guðatölu hjá stuðningsmönnum United, segir að van Gaal skorti metnað og að United-liðið sé engu betra þrátt fyrir að það hafi eytt 220 milljónum punda á síðustu 18 mánuðum.

„Svo virðist sem hann sé sáttur með 4. sætið en United er félag sem á að stefna á Englandsmeistaratitilinn. Hann keypti leikmenn fyrir 150 milljónir punda,“ sagði Scholes.

„David Moyes keypti leikmenn fyrir 70 milljónir og samtals gera þetta 220 milljónir. Þrátt fyrir það lítur liðið verr út.

„United heldur boltanum lengi og við erum ekki að sjá liðið spila þann bolta sem það gerði - og munum væntanlega ekki sjá hann. Það er ekki gaman að horfa á United en þeir eru að vinna leiki.“

Scholes, sem starfar nú sem sérfræðingur fyrir BT Sport segir þó að það verði að sýna van Gaal þolinmæði.

„Við verðum að gefa honum tíma. Félagið getur ekki haldið áfram að reka knattspyrnustjóra. Kannski þarf hann tíma til að aðlagast en hann hefur Ryan Giggs sér til aðstoðar í þeim efnum.

„Ég get fyrirgefið honum þetta tímabilið - hann keypti nýja leikmenn og þeir, líkt og hann, þurfa tíma til að aðlagast aðstæðum.

„En ef United verður ekki í titilbaráttu á þessum tímapunkti á næsta ári þá er eitthvað að,“ sagði Scholes sem lagði skóna endanlega á hilluna vorið 2013 eftir að United hafði tryggt sér sinn 20. Englandsmeistaratitill.


Tengdar fréttir

Le Tissier spáir því að Liverpool endi á undan United

Matt Le Tissier, fyrrum leikmaður Southampton og núverandi knattspyrnuspekingur hjá Sky Sports, var fenginn til þess að spá fyrir um hvaða lið munu enda í sjö efstu sætunum í ensku úrvalsdeildinni í vor.

Neville hefur áhyggjur af góðri spilamennsku Liverpool

Gary Neville, fyrrum leikmaður Manchester United og núverandi knattspyrnuspekingur ársins, skrifaði pistil í The Telegraph um góða frammistöðu Liverpool í leiknum á móti Manchester City um síðustu helgi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×