Enski boltinn

Schmeichel hvetur Van Gaal til að krækja í Zlatan

Anton Ingi Leifsson skrifar
Schmeichel hleður í eina "selfie".
Schmeichel hleður í eina "selfie". vísir/getty
Manchester United goðsögnin, Peter Schmeichel, hefur hvatt Louis van Gaal til þess að gera tilboð í sænska framherja PSG, Zlatan Ibrahimovic. Zlatan hefur spilað með liðum á borð við Ajax, Juventus og Barcelona, en aldrei spilað í ensku úrvalsdeildinni.

Zlatan er með samning við Parísar-liðið til sumarsins 2016, en van Gaal er talinn stórhuga fyrir komandi sumar og vill hann semja við nokkra heita bita á markaðnum. Schmeichel segir að Zlatan geti haft jafn góð áhrif og Cantona hafði á United á sínum tíma.

„Síðasta sumar voru orðrómar um að Zlatan myndi fara í United. Ég sagði þá að Zlatan væri byggður til þess að vera í þessum klúbb, hann væri fæddur til að spila þarna,” sagði Schmeichel við L’Equipe.

„Afhverju var Cantona svona sterkur persónuleiki í United, en ekki í Leeds og öllum liðunum í Frakklandi? Afhverju? Af því þetta er Manchester United. Í Manchester þá er þér gefið frelsi sem leikmaður, en einnig ábyrgð.”

„Okkur er sama hver þú ert eða hvað þú elskar að gera, við lítum til þess hvað þú gerir á vellinum og hvaða áhrif þú hefur á liðið. Ef þú kannt ekki að meta það, þá ferðu,” sagði danska goðsögnin og bætti við að lokum:

„En þú getur verið með allskyns persónuleika. Beckham, Cantona.. þeir fóru út á völlinn og gerðu sitt besta. Það eru hundruð leikmanna sem fara út og vilja vera eins og Beckham og Cantona, en hafa ekki persónuleika þeirra og mistekst.”




Fleiri fréttir

Sjá meira


×