Innlent

Sautján tekur falsaða merkjavöru úr sölu

Kjartan Atli Kjartansson skrifar
Sautján hefur tekið eftirlíkingarnar úr sölu.
Sautján hefur tekið eftirlíkingarnar úr sölu.
Sautján hefur tekið eftirlíkingar af beltum merktum ítalska framleiðandanum Moschino úr verslunum sínum. Þetta staðfesti Svava Jóhansen, eigandi NTC sem á og rekur Gallerí Sautján.

Á Instagram-síðu verslunarinnar má sjá eftirfarandi auglýsingu:

„Loksins eru Moschino beltin mætt aftur til okkar. Takmarkað magn þannig fyrstur kemur, fyrstur fær.“ Í athugasemdum við myndina kemur þó fram að beltin séu „ekki ekta“. Beltin kosta 4995.- krónur í verslunum Sautján.

Moschino er ítalskt merki sem var stofnað árið 1983. Beltin frá fyrirtækinu eru mjög dýr. Á vefsíðu fyrirtækisins kemur fram að beltin kosta allt frá 35 þúsund krónum og upp í 53 þúsund krónur.

„Ekki okkar stíll“

Svava segir að salan á beltinu hafi farið fram án hennar vitundar. „Rekstrarstjórinn vissi heldur ekki af þessu. Við erum með marga í innkaupum hjá okkur og þetta hefur farið framhjá okkur. Það er ekki okkar stíll að selja eftirlíkingar. Sautján er að mestu byggð upp á merkjavöru og svo okkar hönnun. Ég hef sjálf þurft að standa í ströngu til að verja okkar hönnun, sem hefur verið „kóperuð“ og við viljum ekki selja svona óekta vöru,“ segir hún.

„Við viljum vernda höfundarétt á hönnun og við viljum ekki hafa svona vörur til sölu í okkar verslunum,“ segir hún að lokum og bendir á þetta hafi verið mistök sem hafi verið leiðrétt.

Getur varðað við lög

Að flytja inn og selja vöru sem brýtur í bága við höfundarétt varðar við lög. Í 132. grein Tollalaga segir:

„Ef grunur leikur á að innflutningur eigi sér stað á vöru sem brýtur gegn hugverkaréttindum er tollstjóra heimilt, að beiðni rétthafa, að fresta tollafgreiðslu vörunnar á meðan rétthafi leitar bráðabirgðaaðgerða hjá þar til bærum yfirvöldum og í framhaldi af þeim hefur málarekstur fyrir dómstólum. Eftirfarandi skilyrði eru fyrir heimild tollstjóra:

1. að rétthafi leggi fram skriflega beiðni til tollstjóra um að tollafgreiðslu verði frestað og skuldbindi sig til að greiða þann kostnað sem leiðir af aðgerðum tollyfirvalda.

2. að rétthafi leggi fram fullnægjandi gögn þess efnis að hugverkaréttindi njóti verndar hér á landi, að hann sé handhafi þess réttar og að innflutningur vörunnar muni brjóta á rétti hans; hann skal jafnframt leggja fram nógu nákvæma lýsingu á vörunni til að tollyfirvöld geti borið kennsl á hana

3. að rétthafi leggi fram tryggingu í formi fjárgreiðslu, eða með öðrum þeim hætti er tollstjóri telur fullnægjandi, er nægi til að bæta rétthafa, eiganda eða innflytjanda vörunnar það tjón eða þann kostnað sem óréttmæt frestun tollafgreiðslu kann að hafa í för með sér."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×