Körfubolti

Sautján stiga sigur og Ísland í undanúrslit

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Íslensku stelpurnar hafa staðið sig frábærlega á EM.
Íslensku stelpurnar hafa staðið sig frábærlega á EM. mynd/fibaeurope
Stelpurnar í íslenska körfuboltalandsliðinu skipað leikmönnum 18 ára og yngri tryggðu sér nú rétt í þessu sæti í undanúrslitum í B-deild Evrópumótsins með 17 stiga sigri, 85-68, á Hvíta-Rússlandi.

Íslensku stelpurnar, sem hafa unnið fjóra af fimm leikjum sínum á EM, mæta Grikkjum í undanúrslitunum á morgun.

Hvít-Rússar, sem unnu alla sína leiki í riðlakeppninni, byrjuðu leikinn mun betur og komust strax í 8-0. Það hafði lítil áhrif á íslenska liðið sem vann sig hægt og rólega inn í leikinn og náði forystunni, 19-17, áður en 1. leikhluti var allur.

Annar leikhlutinn var jafn framan af en íslensku stelpurnar náðu mjög góðum kafla fyrir hálfleik og leiddu með sjö stigum, 42-35, þegar liðin gengu til búningsherbergja.

Hvít-Rússar byrjuðu seinni hálfleikinn betur og minnkuðu muninn í tvö stig, 44-42. En þá gaf Ísland í, skoraði sjö stig í röð og komst níu stigum yfir, 51-42.

Fimm stigum munaði á liðunum eftir 3. leikhluta, 60-55, en sá fjórði var eign íslenska liðsins. Stelpurnar héldu Hvít-Rússum í aðeins 13 stigum og skoruðu sjálfar 25 stig. Lokatölur 85-68.

Emelía Ósk Gunnarsdóttir var stigahæst í íslenska liðinu með 20 stig. Sylvía Rún Hálfdanardóttir kom næst með 15 stig, auk þess sem hún tók níu fráköst og stal boltanum sex sinnum.

Thelma Dís Ágústsdóttir skoraði 14 stig og Elín Sóley Hrafnkelsdóttir 11 stig og tók sex fráköst. Björk Gunnarsdóttir skoraði níu stig og gaf fimm stoðsendingar en íslenska liðið vann þær mínútur sem hún var inni á vellinum með 20 stigum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×