Enski boltinn

Sautján ára strákur gæti varið mark Newcastle um næstu helgi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jan Alnwick meiddist á öxl.
Jan Alnwick meiddist á öxl. vísir/getty
Alan Pardew, knattspyrnustjóri Newcastle, mun ræða við forráðamenn ensku úrvalsdeildarinnar um þann möguleika að fá leyfi til að fá markvörð að láni fyrir leik liðsins gegn Sunderland á sunnudaginn.

Félagaskiptaglugginn er lokaður, en lið hafa áður fengið undanþágu til að bæta við markverði. Manchester City fékk Marton Fulop á neyðarláni í apríl 2010 þegar Shay Given og Stuart Taylor voru báðir meiddir, en þá var Joe Hart á láni hjá Birmingham.

Tim Krul, aðalmarkvörður Newcastle, er meiddur líkt og varamarkvörðurinn Rob Elliot. Þriðji markvörður liðsins, Jan Alnwick, hefur spilað síðustu þrjá leiki, en hann meiddist á öxl í deildabikarnum gegn Tottenham í gær.

„Það á ekki að vera möguleiki að 17 ára strákur fái að byrja í markinu í úrvalsdeildinni,“ sagði Pardew um hinn kornunga Freddie Woodman sem sat á bekknum hjá Newcastle í gær.

„Alnwick meiddist á öxl og við munum skoða það. Við munum kannski tala við úrvalsdeildina um stöðu hans.“

Ekki er líklegt að þetta gangi í gegn hjá Newcastle þar sem talsmaður úrvalsdeildarinnar sagði í síðustu viku að félagið mætti ekki fá markvörð á neyðarláni þar sem það væri með þrjá heila markverði.

Þar var talað um Alnwick, Woodman og Karl Darlow, sem er á láni hjá Nottingham Forest í B-deildinni. „Aðeins lið með einn heilan markvörð geta nýtt sér þennan möguleika.“

Freddie Woodman, sem er sonur markvarðaþjálfara liðsins, er í U19 ára landsliði Englands og var á láni hjá Hartlepool í byrjun leiktíðar. Hann hefur aldrei spilað fyrir aðallið Newcastle.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×