Erlent

Sautján ára piltur sultuslakur eftir að hafa verið bitinn af hvíthákarli

Birgir Olgeirsson skrifar
Cooper Allen á sjúkrahúsi eftir að hafa verið bitinn af hákarli.
Cooper Allen á sjúkrahúsi eftir að hafa verið bitinn af hákarli. Vísir/Twitter
Cooper Allen, sautján ára brimbrettakappi frá Ástralíu, var lítið að kippa sér upp við það þó hvíthákarl hefði bitið hann fremur illa undan strönd bæjarins Ballina á austurströnd Ástralíu í gær.

Þessi þriggja og hálfs metra langi hákarl sást úr lofti skömmu eftir árásina en sjá má hann á mynd hér fyrir neðan.

Lögreglan sagði í yfirlýsingu til fjölmiðla eftir árásina að Cooper Allen hefði sjálfur komist á þurrt eftir að hafa verið bitinn en þar fékk hann aðhlynningu frá hjúkrunarfræðingi. Hann var fluttur á Lismore Base-sjúkrahúsið og er líðan hans góð.

Pilturinn þarf ekki að undirgangast mikla aðgerð vegna þessa bits en fjölmiðlar ytra segja hann hafa sloppið ótrúlega vel. 

Miðað við myndir sem hafa verið birtar af piltinum virðist hann vera við ágætis heilsu en 7 News í Ástralíu greindi frá því að hann væri hinn hressasti og gantaðist með árásina við vini sína.

ABC News segir þetta vera í fjórða skiptið á tæpum tveimur árum sem hákarl bítur manneskju við þessa eins kílómetra löngu strönd. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×