Erlent

Sat látin á McDonald's klukkustundum saman

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Hong Kong er ein þéttbýlasta borg heims en rúmlega 7 milljón manns búa þar á 1100 ferkílómetra svæði.
Hong Kong er ein þéttbýlasta borg heims en rúmlega 7 milljón manns búa þar á 1100 ferkílómetra svæði. Vísir/AFp
Lík heimilslausrar konu fannst í einu útibúi veitingastaðakeðjunnar McDonald‘s í Hong Kong á laugardagsmorgunn. Talið er að það hafi legið þar klukkustundum saman áður en gestir og starfsfólk staðarins veittu því eftirtekt. Fráfall konunnar, sem var á sextugsaldri, hefur hleypt af stað háværri umræðu um stöðu þeirra fjölmörgu útigangsmanna sem leita sér skjóls í veitingastöðum borgarinnar sem opnir eru allan sólarhringinn.

Þarlendir miðlar greina frá því að lík konunnar hafi fundist þar sem það lá fram á eitt af borðum staðarins. Hafði hún þá verið á veitingastaðnum, sem staðsettur er í verkamannahverfinu Ping Shek, í um sólarhring. Upptökur úr myndavélakerfi staðarins leiddu í ljós að líkið hafi legið fram á borðið í um sjö klukkustundir áður en gesti staðarins fór að gruna að eitthvað kynni að vera að.

Að sögn South China Morning Post var konan reglulegur næturgestur á veitingastaðnum. Í tilkynningu frá félagsstofnun borgarinnar segir að málið sé litið alvarlegum augum og endurspegli víðfemt og flókið vandamál sem heimilislausir í Hong Kong búa við.

Fjölmargir neyðast til búa á götunni í ljósi hás húsnæðisverðs. Þegar hitinn er mikill og rakastigið hátt leita margir þeirra skjóls í loftkældum veitingastöðum sem opnir eru allan sólarhringinn, líkt og raunin var með fyrrnefndan McDonald‘s stað.

Talsmaður keðjunnar hefur vottað aðstandendum konunnar samúð McDonald‘s og heitið viðskiptavinum staðarins að þessi staða muni ekki koma upp aftur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×