Erlent

Sarkozy snýr aftur í frönsk stjórnmál

Atli Ísleifsson skrifar
Nicolas Sarkozy gegndi forsetaembættinu í Frakklandi á árinum 2007 til 2012.
Nicolas Sarkozy gegndi forsetaembættinu í Frakklandi á árinum 2007 til 2012. Vísir/AFP
Nicolas Sarkozy, fyrrverandi Frakklandsforseti, hefur tilkynnt endurkomu sína í frönsk stjórnmál.

Sarkozy greindi frá því á Facebook-síðu sinni að hann muni sækjast eftir leiðtogaembættinu í stjórnarandstöðuflokknum UMP en leiðtogakjör fer fram nú í nóvember. Flestir hafa túlkað það á þann veg að hann hyggi á forsetakjör árið 2017.

„Ég er frambjóðandi til forseta í pólitískri fjölskyldu minni,“ segir Sarkozy á síðu sinni.

Endurkoma hins 59 ára Sarkozy hefur legið fyrir um nokkurt skeið, en hann sagðist hættur í stjórnmálum eftir að hann þurfti að lúta í lægra haldi fyrir Francois Hollande í forsetakosningunum árið 2012. Var Sarkozy fyrsti franski forsetinn til að ekki ná endurkjöri að loknu fyrsta kjörtímabili sínu frá árinu 1981.

Í frétt BBC segir að Hollande eigi nú undir vök að verjast og sýna skoðanakannanir hann vera óvinsælasta forseta Frakklands í sögunni.

Sarkozy á enn mikinn fjölda stuðningsmanna sem telja kraft hans nauðsynlegan til að Frakkland nái að bjarga sér úr ýmsum þeim vanda sem þeir standa frammi fyrir.

Sarkozy er enn mjög umdeildur stjórnmálamaður þó að hann hafi látið lítið fyrir sér fara frá því að hann steig af forsetastóli.

Forsetinn fyrrverandi hefur þó sætt rannsóknum vegna spillingarmála, meðal annars vegna ásakana um að hann hafi reynt að hafa áhrif á dómara sem var að rannsaka mál honum tengd. Sarkozy hefur þó neitað sök í öllum málunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×