Fótbolti

Sara Björk og félagar úr leik í Meistaradeildinni

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir í baráttu við hina frönsku Camille Abily.
Sara Björk Gunnarsdóttir í baráttu við hina frönsku Camille Abily. Vísir/Getty
Þýska liðið Wolfsburg er úr leik í Meistaradeildinni þrátt fyrir 1-0 sigur á útivelli í seinni leik sínum á móti franska liðinu Olympique Lyonnais í átta liða úrslitum Meistaradeildinni.

Olympique Lyonnais vann fyrri leikinn 2-0 í Þýskalandi í síðustu viku og þar með 2-1 samanlagt.

Hin norska Caroline Graham Hansen skoraði eina mark leiksins úr vítaspyrnu átta mínútum fyrir leikslok en þýska liðinu tókst ekki að bæta við marki og tryggja sér framlengingu.

Sara Björk Gunnarsdóttir var í byrjunarliði Wolfsburg og lék í fyrstu 72 mínúturnar. Hún var tekin af velli sjö mínútum eftir að hún fékk gult spjald fyrir brot á bandarísku landsliðskonunni Alex Morgan.

Þetta er í fyrsta sinn í fimm ár sem Wolfsburg kemst ekki í undanúrslit keppninnar en þýska liðið fór alla leið í úrslitaleikinn í fyrra.

Það var einmitt Lyon-liðið sem vann Wolfsburg í úrslitaleik Meistaradeildarinnar í fyrra.

Sara Björk Gunnarsdóttir kom til Wolfsburg fyrir þetta tímabil en henni tókst aldrei að komast í undanúrslitin með sænska liðinu  Rosengård og féll núna út í átta liða úrslitunum í fimmta sinn á síðustu sex árum.

Rosengård féll einnig út úr Meistaradeildinni í kvöld en sænska liðið tapaði 3-0 samanlagt á móti spænska liðinu Barcelona.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×