Fótbolti

Sara Björk og félagar óheppnar í Meistaradeildardrættinum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki með félögum sínum í Wolfsburg.
Sara Björk Gunnarsdóttir fagnar marki með félögum sínum í Wolfsburg. Vísir/Getty
Sara Björk Gunnarsdóttir og félagar í þýska liðinu Wolfsburg höfðu ekki heppnina með sér þegar dregið var í átta liða úrslit Meistaradeildarinnar í dag.

Wolfsburg mætir Evrópumeisturum Olympique Lyon frá Frakklandi og spilar fyrri leikinn á heimavelli.

Þessi lið mættust einmitt í úrslitaleiknum í fyrra þar sem Olympique Lyon vann í vítaspyrnukeppni.

VfL Wolfsburg vann Meistaradeildina 2013 og 2014 og Lyon vann Meistaradeildina 2011 og 2012 auk þess að vinna hana síðasta vor. Þessi tvö lið, sem mætast í átta liða úrslitunum, hafa því unnið Meistaradeildina samanlagt fimm sinnum á síðustu sex árum.

Wolfsburg sló sænska liðið út samanlagt 8-1 í Íslendingaslag í sextán liða úrslitunum en Olympique Lyon vann samanlagt 17-0 á móti svissneska liðinu Zürich.

Takist Wolfsburg-liðinu að slá út Lyon þá mætir liðið annaðhvort Fortuna Hjörring eða Manchester City í undanúrslitunum.

Sænska liðið Rosengård, sem sló Breiðablik út í 32 liða úrslitum keppninnar mætir Barcelona í átta liða úrslitunum. Sara Björk getur ekki mætt sínum gömlu félögum frá Svíþjóð nema að bæði liðin komist alla leið í úrslitaleikinn.

Átta liða úrslit Meistaradeildar kvenna í fótbolta 2016-17:

Fortuna Hjörring - Manchester City

Bayern München - Paris Saint-Germain

Wolfsburg - Olympique Lyon

Rosengård - FC Barcelona




Fleiri fréttir

Sjá meira


×