Lífið

Sápa úr salti

Ragnheiður Tryggvadóttir skrifar
Thelma Hrund Benediktsdóttir bjó til sápu úr salti sem lokaverkefni frá LHÍ.
Thelma Hrund Benediktsdóttir bjó til sápu úr salti sem lokaverkefni frá LHÍ. myndir/úr einkasafni
Mig langaði til að sjá hvernig salt væri búið til og skoðaði saltverksmiðjuna á Reykhólum, Norðursalt. Meðan eigendurnir útskýrðu fyrir mér vinnsluferlið rak ég augun í litla fötu úti í horni og spurði hvað væri í henni. Það var afgangssalt sem ekki er nýtt í framleiðsluna þar sem það er ríkara af magnesíum og því öðruvísi á bragðið. Ég ákvað að finna þessu afgangssalti tilgang.“

Þannig lýsir Thelma Hrund Benediktsdóttir vöruhönnuður upphafinu á lokaverkefni sínu frá Listaháskóla Íslands en hún útskrifaðist síðastliðið vor. Lokaverkefnið varð húðsápa úr náttúrulegum efnum sem nánast öll falla til við aðra framleiðslu.

Thelma nýtti afgangshráefni sem féll til við aðra framleiðslu í sápugerðina.
„Ferlið var í raun tilviljunarkennt og eitt leiddi af öðru en þó liggur mikil rannsókn að baki. Ég var ekki alltaf að hugsa um sápu sem lokaafurð, það er margt annað hægt að gera við salt en við saltframleiðsluna á Reykhólum er heita vatnið sem kemur frá þörungaverksmiðjunni við hliðina nýtt og þegar búið er að nýta vatnið í saltframleiðsluna er það fimmtíu gráðu heitt en það er akkúrat hitinn sem þarf til að búa til sápu. Í sápugerð þarf einnig vítissóda en hann get ég búið til úr salti. Þetta vann því allt saman.“

Thelma sýndi framleiðsluferlið við sápugerðina á útskriftarsýningunni í vor og stillti meðal annars hráefnunum upp á borð.
Sápan inniheldur tólg, þörunga, salt og repjuolíu en repjuolían er eina efnið sem ekki er frá Reykhólum.

„Ég nota bæði harða og mjúka fitu í sápuna, repjuolíu sem kemur frá Þorvaldseyri fyrir austan. Ég er að vinna í því að finna leið til að geta notað hráefni sem öll koma frá Reykhólum. Í framhaldinu væri draumurinn að sápan yrði aukaframleiðsluvara í saltverksmiðjunni þar sem hægt væri að nýta hluti sem eru til staðar en ekki nýttir sem stendur,“ útskýrir Thelma.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×