Fótbolti

Santos tekur við Portúgal

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Santos var ekki sáttur með dómgæsluna í leik Grikklands og Kosta Ríku á HM í sumar.
Santos var ekki sáttur með dómgæsluna í leik Grikklands og Kosta Ríku á HM í sumar. Vísir/Getty
Fernando Santos hefur verið ráðinn nýr landsliðsþjálfari Portúgals. Santos, sem er Portúgali, tekur við starfinu af Paulo Bento sem var rekinn eftir að Portúgal tapaði fyrir Albaníu í undankeppni EM 2016 fyrr í mánuðinum.

Santos var síðast við stjórnvölinn hjá gríska landsliðinu. Hann stýrði því í síðasta sinn gegn Kosta Ríka í 16-liða úrslitum á HM í sumar. Santos var rekinn upp í stúku fyrir mótmæli í þeim leik, sem Grikkland tapaði eftir vítaspyrnukeppni, og í kjölfarið dæmdur í átta landsleikja bann. Þjálfarinn áfrýjaði úrskurðinum, en mál hans verður tekið fyrir í vikunni.

Santos, verður sextugur í næsta mánuði, hefur m.a. stýrt Porto, Benfica og Sporting í heimalandinu og AEK Aþenu, Panathinaikos og PAOK í Grikklandi.

Næsti leikur Portúgals er vináttuleikur gegn Frakklandi í París 11. október. Þremur dögum síðar sækja Portúgalir Dani heim í undankeppni EM 2016.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×