Viðskipti innlent

Sannfærð um hagstæða niðurstöðu

Jón Hákon Halldórsson skrifar
Bresku fjölmiðlarnir fjölluðu um niðurstöður kosninganna í gær. Fyrirsögnin á forsíðu síðdegisblaðsins Evening Standard var tvíræð; Cameron yfirgefur forsætisráðuneytið og Bretar fara úr Evrópusambandinu. Fréttablaðið/EPA
Bresku fjölmiðlarnir fjölluðu um niðurstöður kosninganna í gær. Fyrirsögnin á forsíðu síðdegisblaðsins Evening Standard var tvíræð; Cameron yfirgefur forsætisráðuneytið og Bretar fara úr Evrópusambandinu. Fréttablaðið/EPA
Lilja Alfreðsdóttir
Hugsanlegt er að breskum ferðamönnum á Íslandi fækki eitthvað ef pundið verður veikara eftir niðurstöður Brexit-kosninganna. Hins vegar muni þá gengi annarra gjaldmiðla, til dæmis bandaríkjadals, styrkjast og þá kann að vera að ferðamannastraumur aukist þaðan á móti. Þetta segir Lilja Alfreðsdóttir utanríkisráðherra um áhrif Brexit-kosninganna á Ísland.

Utanríkisráðuneytið hefur að undanförnu lagst í greiningarvinnu til þess að meta áhrif útgöngu Breta á Ísland. „Við höfum verið að kortleggja möguleika og hvað íslensk stjórnvöld geta gert. Okkar markmið er að tryggja þau allra bestu kjör sem eru í boði og greiningarvinnan hefur gengið út á það og hver séu næstu skref,“ segir Lilja í samtali við Fréttablaðið. Hún segir að Íslendingar muni ræða við EFTA-ríkin og vera í sambandi við Noreg og önnur ríki í svipaðri stöðu og Ísland. Lilja segir stöðuna þó vera óljósa og bresk stjórnvöld séu sjálf að átta sig á stöðunni sem er komin upp. „Forsætisráðherrann er búinn að boða afsögn og núna eru þeir bara að ná andanum eftir það sem gerst hefur,“ segir Lilja.



Lilja segir fullsnemmt að segja til um hvort Bretar geti, eftir útgöngu úr ESB, myndað ríkjahóp með þeim Evrópuríkjum sem nú þegar standa utan Evrópusambandsins. „Það eru margar mismunandi leiðir í boði og ég er sannfærð um að það muni nást hagfelld lausn á þessu fyrir Ísland og íslenska hagsmuni,“ segir Lilja

Í minnisblaði Seðlabankans til fjármálaráðuneytisins um niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar segir að Íslendingar hafi flutt út vörur til Bretlands í fyrra fyrir tæplega 73 milljarða króna eða sem nam tæplega 12% af vöruútflutningi ársins. Bretlandsmarkaður er einkum mikilvægur fyrir sjávarútveginn en þangað voru fluttar út sjávarafurðir fyrir um 48,5 milljarð króna í fyrra eða sem nemur 18,3% af öllum sjávarvöruútflutningi ársins 2015. Þá kemur fram að tæplega einn af hverjum fimm ferðamönnum sem komu til Íslands í fyrra var frá Bretlandi.

„Bretland er okkur afar mikilvægt ríki. Þetta er okkar stærsta útflutningsland og það kemur mikill fjöldi ferðamanna frá Bretlandi þannig að það er algjört lykilatriði fyrir okkur að tryggja okkar hagsmuni,“ segir hún.

Gengi hlutabréfa hér heima og erlendis tóku dýfu í gær eftir að niðurstöðurnar urðu ljósar og pundið tók dýfu gagnvart dollar og evru. Lilja segir að stærstu efnahagsríkin hafi mikla þjálfun í því að starfa saman. „Og þau skilja að þetta skiptir þau máli þannig að ég held að allir munu leggja sig ofboðslega mikið fram um það að tryggja hagfellda lausn.“

Ekki mikil neikvæð áhrif nú en fyrirséð um lækkanir á hlutabréfum

Seðlabanki Íslands telur að áhrif niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði líklegast neikvæð en ekki veruleg, sérstaklega þegar frá liður.

Þetta kemur fram í minnisblaði Seðlabankans til Bjarna Benediktssonar, fjármála- og efnahagsráðherra, vegna niðurstöðunnar.

„Í þessu sambandi ber að undirstrika að íslenskar fjármálastofnanir hafa góða eiginfjárstöðu, bera takmarkaða áhættu gagnvart eignum í breskum pundum og eru vel fjármagnaðar í erlendum gjaldmiðlum. Þá er gjaldeyrisforði stærri en í mjög langan tíma í sögu þjóðarinnar og fjármagnshöft draga úr sveiflum í fjármagnsflæði,“ segir í minnisblaðinu. Seðlabankinn fylgist náið með þróun alþjóðlegra og innlendra fjármálamarkaða næstu daga og endurmetur stöðuna eftir því sem ástæða er til.

Hlutabréfamarkaðurinn á Íslandi tók þó skarpa dýfu í gær. Úrvalsvísitalan lækkaði um 4,21 prósent. Gengi bréfa hjá félögum sem eru með útflutning eða starfsemi erlendis, til að mynda Icelandair Group, HB Grandi og Marel lækkuðu mest. Hlutabréf í Icelandair Group lækkuðu um 6,06 prósent í 684 milljón króna viðskiptum.

Magnús Harðarson, forstöðumaður viðskiptasviðs Kauphallar Íslands, segir það ekki koma á óvart að þessi félög verði fyrir mestum áhrifum. Hann segir lækkanir í takt við erlenda markaði. Spáð er því að lækkanir séu framundan næstu daga á erlendum mörkuðum sem gæti þýtt áframhaldandi lækkanir á íslenskum markaði

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu þann 25. júní






Fleiri fréttir

Sjá meira


×