Körfubolti

Sandra Lind með sinn besta leik í mikilvægum sigri

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sandra Lind Þrastardóttir.
Sandra Lind Þrastardóttir. Vísir/Ernir
Íslenski landsliðsmiðherjinn Sandra Lind Þrastardóttir var í stóru hlutverki í mikilvægum útisigri í dönsku úrvalsdeildinni í körfubolta.

Sandra Lind skoraði 13 stig þegar Hörsholm 79ers vann 68-60 sigur á BK Amager. Hún var bæði næststigahæst og með næsthæsta framlagið í sínu liði.

Þetta var þriðji sigur Hörsholm 79ers liðsins í röð og tólfti sigurinn í sextán leikjum á tímabilinu. Liðið er í 2. sæti, fjórum stigum á eftir toppliði Virum GO DREAM.  BK Amager er nú sex stigum á eftir Söndru Lind og félögum en hefðu getað minnkað forystuna í tvö stig með sigri.

Sandra Lind var auk stiganna með 5 fráköst, 3 stolna bolta og 1 stoðsendingu. Hún hitti úr 4 af 9 skotum sínum utan af velli og svo úr 5 af 6 vítum sínum.

Þrettán stig er það mesta sem Sandra Lind hefur skorað í einum leik í dönsku deildinni í vetur en hún er á sínu fyrsta ári hjá liðinu. Sandra Lind er 21 árs gömul og var orðin fyrirliði Keflavíkurliðsins í fyrravetur.  Hún hefur verið fastamaður í íslenska landsliðinu að undanförnu.

Sandra Lind skoraði 10 stig í sigri á Lemvig Basket í fyrsta leik ársins en bætti þann árangur núna.

Sandra Lind hefur verið að hækka meðalskor sitt með hverjum mánuði og er að komast betur inn í þetta hjá Hörsholm 79ers sem lofar góður fyrir lokasprettinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×