Innlent

Sandgerðisbær samþykkir að kaupa fjögur bráðabirgðahúsnæði vegna húsnæðisvanda

Erna Agnes Sigurgeirsdóttir skrifar
Bæjarskrifstofur Sandgerðisbæjar.
Bæjarskrifstofur Sandgerðisbæjar. Vísir/Stefán
Bæjarstjórn Sandgerðis hefur samþykkt tillögur um að kaupa inn fjögur bráðabirgðahúsnæði fyrir fólk sem þarf á aðstoð félagsþjónustunnar að halda og er á biðlistum eftir íbúð.

Ólafur Þór Ólafsson, forseti Bæjarstjórnar, segir í samtali við Vísi að húsin séu keypt tilbúin og aðeins þurfi að tengja þau við vatn og rafmagn. Hafnarbakki sér um að byggja húsin.

Ólafur Þór Ólafsson, forseti bæjarstjórnar Sandgerðis.Sandgerðisbær
Húsin eru tvennskonar. Tvö húsanna eru hugsuð fyrir par eða litla fjölskyldu og er um 48 fermetrar að stærð. Hin tvö eru fyrir einstaklinga og eru rúmir 24 fermetrar. Ólafur segir að þetta sé gert til að vinna á bráðasta vandanum.  

Ólafur segir að verkefnið hafi verið til umræðu frá því í vor.

„Við erum búin að vera skoða þetta sérstaklega vel síðan í vor og settum svolítinn kraft í þetta núna í maí og júní. Síðan settum við vinnu í gagn til að undirbúa þetta og svo kom þessi tillaga sem var samþykkt núna í vikunni,“ segir Ólafur og nefnir að verið sé að byggja húsnæði í bænum á vegum bæjarins en það sé enn dálítill tími þar til þau hús verði fullbyggð. Hann nefnir að á bilinu 10 til 20 manns sem hafi verið á biðlista hjá þeim. Hann sé þó breytilegur.

Búist er við að hægt verði að flytja inn í bráðabirgðahúsnæðið í haust.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×