Erlent

Sanders kallar Trump lygalaup

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump og Bernie Sanders.
Donald Trump og Bernie Sanders. Vísir/Getty
Öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders segir að Donald Trump, verðandi forseti Bandaríkjanna, sé lygalaupur. Hann varpi ítrekað fram fullyrðingum sem séu allfarið ekki réttar. Þetta sagði Sanders á borgarafundi sem CNN hélt í gærkvöldi.

Þrátt fyrir að hafa tapað í forvali Demókrataflokksins fyrir forsetakosningarnar gegn Hillary Clinton er Sanders mjög áhrifamikill meðal demókrata í Bandaríkjunum.

Á fundinum í gær var farið víða yfir málefni og var tekið á móti spurningum úr salnum.

Sanders sagðist meðal annars vera sammála leyniþjónustum Bandaríkjanna um að yfirvöld í Rússlandi hafi beitt sér fyrir Donald Trump með tölvuárásum og áróðri á internetinu. Þá sagðist hann hafa áhyggjur af því hvernig Repúblikanaflokkurinn væri að gera fólki erfiðara að kjósa.

Þar að auki var Sanders spurður út í hvernig honum litist á komandi stjórnarandstöðu. Hann sagði slíkt fyrirkomulag vera ríkjandi um allan heim og það væri hlutverk stjórnarandstöðu að setja fram uppbyggilega gagnrýni og öðruvísi hugmyndir um hvernig hægt væri að bæta líf Bandaríkjamanna.

Hann sagði að Demókrataflokkurinn myndi ekki gera eins og Repúblikanaflokkurinn hefði gert í forsetatíð Barack Obama. Það hefði verið að standa ítrekað í vegi hans og ganga úr skugga um að hann kæmi litlu í verk. Þá hefðu þeir kvartað yfir því að Obama hefði ekki komið neinu í verk.

Þá lenti Sanders í rifrildi við eiganda lítils fyrirtækis sem kvartaði yfir auknum sköttum og fjölgun reglugerða.


Tengdar fréttir

Væntanlegir ráðherrar spurðir spjörunum úr

Bandarískir þingmenn hefjast handa við að kanna hæfni ráðherraefna Donalds Trump. Dómsmálaráðherraefnið verður vísast spurt út í kynþáttafordóma og utanríkisráðherraefnið spurt út í náin tengsl sín við rússneska ráðamenn.

Rússar líkja ásökunum um tölvuárásir við nornaveiðar

Rússar eru orðnir leiðir á ásökunum að þeir hafi staðið að baki tölvuárásum sem urðu til þess fallandi að kosninganiðurstöður bandarísku forsetakosninganna í nóvember síðastliðinn, urðu Trump í hag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×