Enski boltinn

Sánchez frábær í sigri Arsenal | Sjáðu mörkin

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Alexis Sánchez kemur Arsenal yfir gegn QPR.
Alexis Sánchez kemur Arsenal yfir gegn QPR. vísir/getty
Arsenal lagði QPR að velli með tveimur mörkum gegn einu á Emirates Stadium í síðasta leik dagsins í ensku úrvalsdeildinni.

Myndband með öllu því helsta úr leiknum má sjá hér fyrir neðan.

Arsenal-menn voru sterkari í fyrri hálfleik og á 8. mínútu fiskaði Alexis Sánchez vítaspyrnu. Hann fór sjálfur á punktinn en Rob Green varði slaka spyrnu hans.

Sánchez bætti svo fyrir mistökin á 37. mínútu þegar hann skallaði boltann í netið eftir fyrirgjöf frá Kieran Gibbs, en Chile-maðurinn átti frábæran leik og var besti maður vallarins.

Oliver Giroud missti stjórn á skapi sínu á 53. mínútu þegar hann skallaði Nedum Onuoha eftir að síðarnefndi hafði hrint á bakið á Frakkanum. Martin Atkinsson rak Giroud umsvifalaust af velli.

Það kom ekki að sök því tólf mínútum síðar skoraði Tomas Rosicky annað mark Arsenal eftir sendingu frá Sánchez.

QPR fékk líflínu á 79. mínútu þegar Mathieu Debuchy felldi Junior Hoilett innan vítateigs. Charlie Austin skoraði úr vítaspyrnunni, en þetta var 10. mark hans í síðustu níu leikjum.

Tíu Arsenal-menn héldu út, þótt það hefði staðið tæpt, og fögnuðu mikilvægum sigri sem skilar liðinu upp í 6. sæti.

QPR er hins vegar í 16. sæti með 17 stig, tveimur stigum frá fallsæti.

Allt það helsta úr leiknum



Fleiri fréttir

Sjá meira


×