Körfubolti

San Antonio og Toronto komust í undanúrslit | Myndbönd

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Popovich og Parker eru komnir í undanúrslit.
Popovich og Parker eru komnir í undanúrslit. vísir/getty
San Antonio Spurs er komið í undanúrslit vesturdeildar NBA en liðið lagði Memphis Grizzlies, 103-96, í sjötta leik liðanna í átta liða úrslitum í nótt á heimavelli Memphis.

Spurs komst í 2-0 í rimmunni en Memphis svaraði með tveimur sigrum á heimavelli. Lærisveinar Greggs Popovich keyrðu sig aftur í gang og unnu næstu tvo og komust áfram.

Kawhi Leonard var stigahæstur gestanna með 29 stig en gamla brýnið Tony Parker skoraði 27 stig. Hjá Memphis var Mike Conley með 26 stig og Marc Gasol með 18 stig.

Spurs hafði engan áhuga á því að fara í leik sjö og fá minni hvíld fyrir undanúrslitin því þar bíður liðsins James Harden og félagar í Houston Rockets sem unnu OKC Thunder, 4-1.

Toronto Raptors vann Milwaukee Bucks, 92-89, á útivelli í nótt og kláraði þá rimmu, 4-2. Toronto á fyrir höndum undanúrslitaseríu á móti Cleveland Cavaliers.

DeMar DeRozan var stigahæstur Toronto með 32 stig en Giannis Antetokounmpo skoraði 34 stig og tók níu fráköst fyrir Milwaukee Bucks.

NBA



Fleiri fréttir

Sjá meira


×