Innlent

Samvinnan skilaði sínu: Eins árs barn hætt komið

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Björgunarfélagið Eyvindur hefur þessa tvo öflugu bíla til umráða.
Björgunarfélagið Eyvindur hefur þessa tvo öflugu bíla til umráða. Mynd/Fésbókarsíða Eyvindar
Betur fór en á horfðist á laugardaginn þegar lítil filma úr barnamyndavél festist í hálsi tæplega ársgamals barns á Flúðum. Vettvangshjálparliðar úr björgunarfélaginu Eyvindi voru fljótir á vettvang og losuðu um hlutinn í hálsi barnsins.

Óskar Rafn Emilsson, gjaldkeri björgunarfélagsins, segir að filman hafi ekki fullkomlega lokað öndunarvegi barnsins. Vel hafi gengið að losa um hlutinn eftir að hann kom á staðinn ásamt kollega sínum Borgþóri Vignissyni. Filman sé um 5x5 millimetrar á stærð, oddhvöss en hún er úr barnamyndavél þar sem litlu filmurnar eru settar í vélina, horft upp í ljósið og sést þá mynd.

Borgþór, Óskar og félagar í Eyvindi sinna reglulega útköllum í nærsveitum en um samstarfsverkefni við Heilbrigðisstofnun Suðurlands er að ræða. Óskar segir að á síðasta ári hafi þeir verið kallaðir út í 45 skipti eða tæplega einu sinni í viku. Um sjálfboðavinnu er að ræða.

„Ekki er vafi á að með þessu fyrirkomulagi felst mikið öryggi fyrir fólk á þessu svæði,“ segir í skýrslu lögreglunnar á Suðurlandi vegna atviksins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×