Viðskipti innlent

Samtök iðnaðarins leggja áherslu á mikilvægi menntunar

Stefán Árni Pálsson skrifar
Verkamenn við vinnu í Kórahverfinu.
Verkamenn við vinnu í Kórahverfinu. Vísir/Vilhelm
Meðal þess sem fjallað verður um á Iðnþingi Samtaka iðnaðarins á fimmtudag er hlutverk menntunar í því að bæta framleiðni hér á landi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Samtökum Iðnarðarins.

Það segir að eins og staðan er nú sé mikill skortur á iðn- og verkmenntuðu fólki á Íslandi. Hlutfallslega fáir nemendur innritast í starfsnám, en einungis 12% grunnskólanema völdu starfsnám að loknu grunnskólaprófi haustið 2014. Atvinnurekendur í iðnaði telja mikilvægt að mæta þeirri knýjandi þörf sem er á að fjölga ungu fólki í iðn- og verknámi hér á landi.

„Það er markmið Samtaka iðnaðarins að fagmenntuðu fólki fjölgi á næstu árum og verði hlutfall grunnskólanema sem velji starfsnám 30% árið 2030. SI eru meðvituð um mikilvægi þess að atvinnulífið komi að uppbyggingu menntunar í landinu og leggja því ríka áherslu á aðkomu atvinnulífs með formlegum hætti að stefnumótun og gerð námsskráa,“ segir í tilkynningunni.

Á Iðnþingi verða ræddar fjölbreyttar áherslur Samtaka iðnaðarins í menntamálum. Þá verður einnig fjallað um þann framleiðnivanda sem íslenska hagkerfið glímir við og hlutverk nýsköpunar í framleiðniaukningu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×