Innlent

Samtök iðnaðarins ítreka kröfu um þjóðaratkvæðagreiðslu um ESB

Heimir Már Pétursson skrifar
Formaður Samtaka iðnaðarins segir iðnfyrirtæki landsins ekki þola þær miklu launahækkanir sem verkalýðshreyfingin er að krefjast og nauðsynlegt sé að fjölga iðnlærðu fólki á Íslandi. Aðalfundur samtakanna hvetur stjórnvöld til að setja áframhald aðildarviðræðna við Evrópusambandið í þjóðaratkvæðagreiðslu í stað þess að slíta viðræðunum.

Iðnþing var haldið í dag undir slagorðinu "erum við tilbúin fyrir næstu iðnbyltingu.“ Formaður Samtaka iðnaðarins undirstrikaði í ræðu sinni mikilvægi fjölbreyttra iðngreina í iðnbyltingu framtíðarinnar sem þyrfti á vel menntuðu fólki á ýmsum sviðum iðnaðarins að halda. Hins vegar stæðust iðnfyrirtækin ekki kröfur verkalýðshreyfingarinnar um tveggja stafa launahækkun.

Í þessu felst viss þverstæða því á undanförnum árum hafa þúsundir iðnaðarmanna flúið land, sérstaklega í byggingariðnaði, vegna verkefnaleysis og lélegra kjara. Það er því skortur á iðnaðarmönnum á Íslandi.

„Það er rétt. Við höfum misst marga iðnaðarmenn frá okkur. Sérstaklega til Noregs og við viljum gjarnan fá þá aftur heim. En við gerum okkur grein fyrir að launakjörin hér eru kannski með öðrum hætti og vinnutíminn en er í Noregi eða nágrannalöndunum," segir Guðrún Hafsteinsdóttir formaður Samtaka iðnaðarins.

En það skorti líka verkefni á Íslandi og þá alveg sérstaklega í byggingariðnaðinum.

„Og rekstrarskilyrði iðnaðar hafa verið erfið. Þau hafa verið íþyngjandi í formi aukinna gjalda og skatta. Á meðan að svo er getum við ekki, við bara getum ekki, tekið við miklum launahækkunum,“ segir Guðrún.

Þær muni leiða til verðbólgu og uppsagna hjá fyrirtækjunum. Verkföll hefðu líka alvarlegar afleiðingar og vonandi verði ekki að þeim.

Stjórn Samtaka iðnaðarins skoraði í ályktaði í janúar á stjórnvöld að slíta ekki viðræðunum við Evrópusambandið. Á aðalfundi samtakanna í dag var þessi afstaða ítrekuð og jafnframt skorað á stjórnvöld að boða til þjóðaratkvæðagreiðslu um framhald aðildarviðræðna.

„Okkur var lofað er það ekki að þetta færi í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ég sagði hér í ræðu minni áðan að menn ættu að standa við orð sín og ég ítreka það,“ sagði Guðrún Hafsteinsdóttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×