Erlent

Samþykktu samhljóða að heimila hjónabönd samkynhneigðra

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá Nuuk.
Frá Nuuk. Vísir/EPA
Þing Grænlands hefur samþykkt samhljóða að taka upp dönsk lög sem gera samkynhneigðum kleift að ganga í hjónaband. Sú ákvörðun gerir Grænland 21. landið í heiminum þar sem aðilar af sama kyni geta gift sig. Einungis nokkrir dagar eru síðan Írar héldu þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem álíka lög voru samþykkt með miklum meirihluta.

Írar voru fyrsta þjóðin til að halda þjóðaratkvæðagreiðslu um máli. Þessi umræða hefur nú skotið upp kollinum víða um heiminn.

Í Ástralíu ætlar Verkamannaflokkurinn leggja fram frumvarp um að gera hjónabönd samkynhneigðra lögleg. Forsætisráðherra Ástralíu, Tony Abbot, lærði um tíma að vera kaþólskur prestur og er ekki hlynntur slíkum hjónaböndum samkvæmt Independent. Hann hefur þó gefið í skyn að hann muni leyfa þjóðaratkvæðagreiðslu um málefnið.

Forsætisráðherra Ítalíu, Matteo Renzi, hefur heitið því að greiða götur samkynhneigðra. Hlutfall kaþólskra í Ítalíu er um 81 prósent, sem er álíka og í Írlandi. Atkvæðagreiðslan í Írlandi hefur þar að auki sett þrýsting á Norður-Írland um að gera slíkt hið sama.

Þar að auki hefur ríkjum fjölgað í Bandaríkjunum þar sem hjónabönd samkynhneigðra eru leyfileg og þing Slóveníu samþykkt slík lög í mars. Forseti Slóveníu hefur þó ekki skrifað undir þau enn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×