Lífið

Samtal við umdeildan leikstjóra

Stefán Þór Hjartarson skrifar
Michael Moore tekur á hinum ýmsu kvillum bandarísks samfélags í myndum sínum.
Michael Moore tekur á hinum ýmsu kvillum bandarísks samfélags í myndum sínum. Mynd/Getty
Hann kemur til Íslands með það fyrir augum meðal annars að skoða hvernig konur hafa náð langt, hvernig Vigdís Finnbogadóttir náði kjöri og er líka að skoða kvennafrídaginn og hvernig konur lögðu niður störf, sem varð heimsfrétt og er auðvitað stórmerkilegt,“ segir Ísold Uggadóttir sem verður kynnir kvöldsins en hún sá um framleiðslu á þeim hluta myndarinnar sem var tekinn upp hér á landi. Aðrir sem Moore ræðir við á Íslandi eru Halla Tómasdóttir, Jón Gnarr, Ólafur Þór Hauksson og fleiri.

„Hann ætlar að sýna þessa mynd eiginlega í beinni útsendingu – hún er sýnd samtímis í öllum löndunum sem koma fram í myndinni á sama tíma. Michael er núna staddur á kvikmyndahátíðinni The Traverse City Film Festival, hann er dagskrárstjóri á þeirri hátíð og ber ábyrgð á henni. Þessar lifandi umræður að sýningu lokinni verða á sama tíma í öllum löndunum níu sem hann heimsækir í myndinni. Það útskýrir af hverju hún er sýnd klukkan fjögur á föstudegi um verslunarmannahelgina en þeir sem eru í bænum og vilja sjá Michael Moore á tjaldinu í Skype-samtali eftir myndina geta gripið tækifærið áður en þeir fara úr bænum. Myndin verður sýnd fjögur og samtalið byrjar um sex.“

Í myndinni ferðast Michael Moore til níu landa og skoðar þar góðar hugmyndir sem Bandaríkin gætu lært af. Titillinn „Where to Invade Next“ er ádeila á hernaðarstefnu Bandaríkjanna sem er Michael Moore ávallt mjög hugleikin og vísar þessi titill til þess að stjórnvöld í landinu eiga það til að ráðast inn í lönd til að tryggja sér auðlindir þeirra og Moore er hér, á gamansaman hátt, að stinga upp á að kannski ætti að „ráðast“ inn í ríkin níu til að eigna sér þessar góðu hugmyndir þeirra. Hann skoðar, fyrir utan Ísland, orlof á Ítalíu, skólamötuneyti í Frakklandi, iðnaðarstefnu Þýskalands, fangelsismálakerfi Noregs, kvenréttindastefnu Túnis og fleira.

Frítt er á sýninguna. Eins og áður sagði byrjar viðburðurinn klukkan fjögur í dag, þá verður mynd Michaels Moore sýnd og klukkan sex hefst svo Skype-samræðan við leikstjórann og verða fulltrúar frá öllum ríkjunum níu með í spjallinu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×