Fastir pennar

Samt ekki þjóðin

„Þið eruð ekki þjóðin!" á Ingibjörg Sólrún að hafa sagt á borgarafundi í Háskólabíói. Með upphrópunarmerki og öllu. Satt að segja væri ég til í að prenta þennan frasa á boli. Því auðvitað er mjög hugað að segja þetta við æstan múg. Hugað og satt.

Það er bara eitt vandamál. Ingibjörg Sólrún sagði þetta aldrei. Sé myndband af fundinum skoðað má sjá að ummælin voru: „Ég skil það líka hjá ýmsum sem sitja hér í salnum að þeir vilji okkur [ríkisstjórnina] burt. En ég er ekki viss um að þeir sem eru hér í salnum geti endilega talað fyrir þjóðina, þið séuð endilega þess umkomnir að tala fyrir þjóðina".

Það var líka hugað og líka satt þótt það passi verr á boli.

Auðvitað púuðu fundarmenn og urðu alveg snar. Fannst þeir víst geta talað fyrir þjóðina. Hvernig gat einhver haldið öðru fram? Einhverjum þótti Ingibjörg Sólrún hafa borið vont skynbragð á aðstæður. Ósammála. Mér fannst þetta glæstasta stund þessarar ágætu stjórnmálakonu.

Fámennur meirihluti þjóðarinnar

Á þessum fundi sátu ráðherrar í ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar andspænis brjálaðri þjóðinni. Svo komu mótmæli. Svo meiri mótmæli. Svo kveikti þjóðin í jólatrjám og braut rúður í Alþingishúsinu. Svo mótmælti þjóðin enn meira. Loks, eftir að þjóðin hafði fengið sig endanlega fullsadda af þessari tveggja flokka stjórn, fór stjórnin frá og það var boðað til kosninga. Í þeim kosningum fengu Sjálfstæðisflokkurinn og Samfylkingin samtals 53,5% atkvæða og 36 þingmenn. Eftir allt sem á undan hafði gengið þá hélt hrunstjórnin því meirihluta sínum. Kjósendur hötuðu þessa stjórnmálamenn ekki meira en svo.

Vonda planið

Það var gott hjá Valgerði Bjarnadóttur að senda stjórnarskrárdrögin sem nú er rætt um til Feneyjanefndar. En í ljósi þess hve efnismiklar athugasemdir Feneyjanefndarinnar voru og hve miklar breytingar hefur þurft að gera á frumvarpinu í kjölfarið er ljóst að málið verður ekki samþykkt á þeim stutta tíma sem eftir er. Það væri óskynsamlegt og fæli í sér vont fordæmi. Enda er ekki meirihluti fyrir því að gera það, sama hvað mönnum finnst.

Planið sem „fulltrúar þjóðarinnar" virtust tala fyrir fólst í því að takmarka mjög ræðutíma í umræðu um stjórnarskrána og keyra hana í gegn á fullri hörku. Hugsum þetta aðeins. Heildartillögurnar í sinni nýjustu mynd komu fram á mánudag. Á að skapa það fordæmi að allt í lagi sé að stöðva umræður stjórnarskrárbreytingar efir 1-2 daga og keyra þær í gegn? Í alvörunni, vilja menn það? Sjá menn fyrir sér að hollt væri fyrir næstu ríkisstjórnir að búið væri að skapa það fordæmi?

Talið fyrir ykkur sjálf

Frambjóðendum Dögunar og Lýðræðisvaktarinnar veitti ekki af smá raunveruleikatékki. Samanlagt mælast þessi framboð með um 2% fylgi í skoðanakönnunum þrátt fyrir að þingmenn og frambjóðendur þessara framboða hafi varla farið huldu höfði. Það virðist einfaldlega ekki áhugi meðal kjósenda til að fá þetta fólk til starfa. Auðvitað eiga kosningarnar eftir að leiða hið raunverulega fylgi þess í ljós en samt bendir fátt til að þetta fólk sé í einhverjum beinni tengslum við þjóðina en aðrir stjórnmálamenn.

Ingibjörg Sólrún benti á hið augljósa. Að hver og einn getur bara talað fyrir sjálfan sig. Það dugar mörgum hins vegar ekki. Hreyfing sem kenndi sig við 99 prósentin var eitt dæmi um það. Þorvaldur Gylfason, Gísli Tryggvason og Þór Saari nota þjóðina í annarri hverri setningu og finnst það valdarán að alþingismenn skyldu fylgja eigin sannfæringu en ekki því sem þjóðinni (þ.e. þeim sjálfum) finnst.

Þykir mönnum þá, fyrst um „valdarán" er að ræða, réttlætanlegt að brjóta aftur rúður í þinghúsinu, kveikja í fleiri jólatrjám og sitja um heimili þingmanna til hindra það „valdarán"? Mun nær er að segja að þeir sem hvetji til slíks hvetji til valdaráns. En svona er þetta. Það er eins og sumir stjórnmálamenn vilji ekki sækja umboð sitt í kjörkassana heldur leiti að því á stéttinni fyrir framan þinghúsið. Því þar hljóti þjóðina að vera að finna, að þeirra mati.






×