Viðskipti erlent

Samsung skipað að tryggja öryggi battería sinna

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Yfirvöld í Suður-Kóreu hafa skipað tæknifyrirtækinu Samsung að gera það sem þarf til þess að tryggja að öryggi battería sem finna má í Samsung Galaxy Note 7 síma fyrirtækisins séu örugg. Eftir að símarnir voru innkallaðir fyrir skömmu er sala þeirra að hefjast á ný.

Innkalla þurfti um 2,5 milljónir Galaxy Note 7 síma fyrirtækisins vegna galla í batteríinu sem gat orðið til þess að síminn sprakk við eða skömmu eftir hleðslu. Féllu hlutabréf fyrirtækisins í verði en vandamálið var í hámæli á sama tíma og helsti keppinautur Samsung á símamarkaði, Apple, kynnti nýjasta síma sinn til leiks. Var sala á Galaxy Note 7 stöðvuð á meðan fyrirtækið komst fyrir vandann.

Sjá einnig:Klúður Samsung er himnasending Apple

Tækni- og staðlastofnun Suður-Kóreu segist hafa samþykkt áætlanir Samsung um að hefja sölu á símanum á ný enda hafi fyrirtækið samþykkt að hlýta skilyrðum sem sett voru. Þarf Samsung að tryggja að röntgen-myndir séu teknar af batteríunum áður en þau eru send út svo tryggja megi að ekkert sé að þeim.

Síminn var settur á markað þann 19. ágúst síðastliðinn og er flaggskip Samsung á símamarkaði. Var honum vel tekið af gagnrýnendum og notendum og var líklegur til að seljast mjög vel. Greinendur gera ráð fyrir því að sala nýju síma Apple verði mun betri vegna klúðurs Samsung.

Innköllun farsímaframleiðandans Samsung á nýja Galaxy Note 7 símanum hefur lítil sem engin áhrif hér á landi en hann er ekki kominn í sölu hér á landi.


Tengdar fréttir

Samsung stöðvar sölu á Galaxy Note 7

Fréttir hafi borist bæði frá Bandaríkjunum og Suður-Kóreu um að síminn hafi sprungið á meðan á hleðslu stendur eða að henni lokinni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×