Innlent

Samstöðufundur yfirtók húsakynni Ríkissáttasemjara

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Á annað hundrað manns eru nú staddir í húsakynnum Ríkissáttasemjara þar sem fram fer samstöðufundur með samninganefnd Félags stjórnenda leikskóla (FSL).

Samningafundur FSL og samninganefndar sveitarfélaga hófst í húsinu nú klukkan 10 en viðræður síðustu vikna hafa gengið hægt og er fundurinn sá sjöundi í röðinni undir stjórn ríkissáttasemjara.

„Ljóst er að félagsmenn FSL hafa áhyggjur af stöðunni og að langlundargeð þeirra er á þrotum,“ segir í tilkynningu frá Kennarasambandinu.

Því hafi margir ákveðið að nýta kaffihlé sitt til að sýna samninganefnd félagsins samstöðu með því að mæta fyrir framan húsnæði Ríkissáttasemjara nú klukkan 09:45 í morgun.

Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður FLS, hélt smá tölu að þessu tilefni þar sem hún þakkaði fólki fyrir komuna og fyrir stuðninginn. 

Hér að ofan má sjá þegar fundarmenn gengu inn í húsnæði embættisins og kyrjuðu hvort ekki væri kominn tími til að semja.



Inngangurinn að Borgartúni 21 var skreyttur með merkjum fundarins.Mynd/Elísabet



Fleiri fréttir

Sjá meira


×