Innlent

Samstarf við náttúruvöktun

Stefán Rafn Sigurbjörnsson skrifar
Skýrslu skilað Tillögurnar auka faglega upplýsingaöflun.
Skýrslu skilað Tillögurnar auka faglega upplýsingaöflun. Mynd/Umhverfisráðuneytið
Stýrihópur umhverfisráðuneytisins og nokkurra stofnana hefur skilað umhverfis- og auðlindaráðherra skýrslu um frumathugun á samlegð stofnana sem vakta náttúru Íslands. Í skýrslunni er lagður til flutningur verkefna á milli stofnana, sameiningar og aukið samstarf.

Stýrihópurinn leggur til að Náttúrufræðistofnun Íslands og Náttúrurannsóknarstöðin við Mývatn sameinist, að verkefni verði flutt frá Umhverfisstofnun til Veðurstofu Íslands og að komið verði á samstarfi Veðurstofu Íslands og Íslenskra orkurannsókna, ásamt fleiri tillögum. Eitt af meginmarkmiðum stýrihópsins var að leggja mat á það hvort sameining stofnana, aukið samstarf og samþætting verkefna sé góður kostur.

Þær stofnanir sem voru til skoðunar voru Náttúrfræðistofnun Íslands, Náttúrurannsóknastöðin við Mývatn, Umhverfisstofnun, Íslenskar orkurannsóknir, Rannsóknastöðin í jarðskjálftaverkfræði og Veðurstofa Íslands.

Framtíðarsýnin sem felst í tillögunum er að fram fari öflugt og faglegt starf á sviði gagnaöflunar, rannsókna og vöktunar á náttúru Íslands. Þá eru þær til þess fallnar að vanda við upplýsingamiðlun og ákvarðanatöku við viðbúnað gagnvart hvers lags náttúruvá.

Þá telur stýrihópurinn ekki tímabært að sameina allar stofnanir umhverfisráðuneytisins sem vakta náttúru Íslands í eina stofnun heldur verði frekar mörkuð heildstæð stefna um vöktun náttúrunnar. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×