Skoðun

Samstaða þeirra sem voru einu sinni Litlar manneskjur

Aðalbjörg Stefanía Helgadóttir skrifar
Það er langt síðan ég hef séð jafnmikla samstöðu á veggnum mínum á Facebook og undanfarna daga. Samstaðan felst í því að allt í einu hafa hér um bil allir vinir mínir skipt um forsíðumynd hjá sér í tilefni Barnamenningarhátíðar 2016.

Í stað hetjulegra forsíðamynda af sjálfum sér uppi á fjöllum, í sínu fínasta árshátíðarpússi eða með dreyminn svip í fjarlægu landi, þá birtast nú myndir af litlum manneskjum í vöggu, að borða, að skæla, að fara í skólann í fyrsta sinn, í sparifötum á jólunum, að hlæja í fangi ömmu og afa, að borða snúð, að sitja uppstillt í sófa, að vera brosandi með fléttur eða sitja í mjúku grasi með stóra bróður á heitum sumardegi.

Við fyllumst ljúfsárri hlýju þegar við sjáum þessar myndir, sem kveikja jafnmargar og ólíkar æskuminningar eins og við erum mörg. Kannski vakna óuppgerðar tilfinningar, sársauki, óöryggi og vanlíðan. Eða öryggi, skjól og kærleikur. Hvernig sem því er háttað, þá förum við ósjálfrátt að hugsa til okkar þegar við vorum lítil og tökum utanum þessar litlu manneskjur sem voru kannski oft óttaslegnar við þessa stóru veröld.

Aðalbjörg þegar hún var lítil
Ég setti inn mynd af Litlu-mér þar sem ég sat í íslensku roki og sól á kletti á árbakka, brosandi út að eyrum. Minningin sem myndin vakti með mér var þessi:

Litla-ég á ferðalagi með foreldrum mínum þegar hamingjan vitjaði mín á sama andartaki og ég brosti framan í framtíðina og fólkið sem elskaði mig umfram allt.  

Á sama tíma og við minnumst okkar þá hugsum við um hve gott það var að vita ekki þá allt sem ætti eftir að eiga sér stað. Við sáum þó öll fyrir okkur framtíð sem var lituð af þeim veruleika sem við bjuggum í og af þeim fyrirmyndum sem við höfðum; kennurum, konunni í búðinni, ömmu, mömmu, pabba, stóru frænku eða frænda.

Nákvæmlega núna erum við þessar fyrirmyndir fyrir litla fólk dagsins í dag.  

Samstaðan á BabyFacebook er svo sterk vegna þess að við höfum öll verið litlar manneskjur og þess vegna öll verið í sporum litla fólksins í samfélagi nútímans. Við vitum hvernig þeim líður, við vitum hvað hræðir þau, hvað fyllir þau öryggi og hvað gleður þau. Við vitum líka hvers þau óska og vona. Gleymum því ekki þegar við eigum í samskiptum við litla fólkið í samfélaginu okkar í dag.

Við munum öll að dýrmætasta tilfinningin sem Litlu-við fundum fyrir, innst í hjarta okkar, var fullvissan um að vera elskuð nákvæmlega eins og við erum.

Nú erum við fólkið sem horfum í augu barna, ungmenna og allra annarra og segjum þeim að tilvera þeirra skiptir máli, þau eru elskuð og við ætlum vel fyrir þeim að sjá.




Skoðun

Skoðun

Bestu árin

Álfhildur Leifsdóttir,Hólmfríður Jennýjar Árnadóttir,Sigríður Gísladóttir skrifar

Sjá meira


×