Fótbolti

Samningur Fellaini framlengdur um eitt ár

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Maraoune Fellaini og José Mourinho féllust í faðma eftir að sá fyrrnefndi kom Man Utd í 2-0 gegn Hull á þriðjudag.
Maraoune Fellaini og José Mourinho féllust í faðma eftir að sá fyrrnefndi kom Man Utd í 2-0 gegn Hull á þriðjudag. vísir/getty
Marouane Fellaini verður áfram hjá Manchester United til loka tímabilsins 2018 hið minnsta ef marka má frétt Daily Mail í dag.

Það var talið að Belgíumaðurinn hafi skrifað undir fimm ára samning þegar hann kom frá Everton árið 2013 en engu að síður þurfti að virkja klásúlu í samningi hans til að halda honum síðasta samningsárið.

Það hefur gengið á ýmsu hjá Fellaini hjá United en hann hefur spilað vel undir stjórn Jose Mourinho í haust og skoraði síðara mark United í 2-0 sigri á Hull í enska deildabikarnum á þriðjudag.

Eftir markið hljóp hann beint í fang Mourinho og fagnaði með Portúgalanum líflega.



United virkjaði samningsákvæðið þegar Fellaini var að íhuga að færa sig um set, mögulega til Ítalíu eða jafnvel til Kína. Ef United hefði ekki gert það hefði Fellaini verið frjáls að ræða félög utan Bretlands frá og með 1. janúar.

Fellaini mun vera áhugasamur um að spila enn lengur fyrir United en viðræður um nýjan samning hafa ekki átt sér stað, samkvæmt frétt Daily Mail.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×