Enski boltinn

Samningaviðræður United og Mourinho halda áfram í dag

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Jose Mourinho er hundeltur af ensku pressunni þessa dagana.
Jose Mourinho er hundeltur af ensku pressunni þessa dagana. vísir/getty
Ed Woodward, stjórnarformaður Manchester United, og hans helstu samstarfsmenn setjast aftur að samningaborðinu í dag með Jorge Mendes, umboðsmanni José Mourinho. Þetta kemur fram á vef BBC.

Sky Sports greindi aftur á móti frá því í gærkvöldi að samningar væru meira og minna í höfn en lögfræðingar Mourinho ættu bara eftir að ganga frá smáatriðum tengdum honum sjálfum og auglýsingasamningum.

Þeir hittust í gær og reyndu að ganga frá þeim atriðum sem eftir eru tengdum væntanlegum samningi Mourinho við Manchester United en eitt stærsta málið er hversu langur samningurinn á að vera.

Það er alveg morgunljóst að Portúgalinn verður næsti knattspyrnustjóri Manchester United en hann tekur við af þeim hollenska Louis van Gaal sem var rekinn á mánudaginn, tveimur dögum eftir að vinna enska bikarinn.

Nokkrir fyrrverandi leikmenn Manchester United hafa opinberlega sagst vera ánægðir með væntanlega ráðningu á Mourinho en þar má nefna markvörðinn Peter Schmeichel og miðvörðinn Steve Bruce.

Schmeichel sagði að ráðning Mourinho gæti bjargað Manchester United og Bruce sagði að tækifærið til að ráða þennan þrefalda meistara í ensku úrvalsdeildinni væri of gott til að sleppa því.

Eric Cantona vildi aftur á móti fá Pep Guardiola til Manchester. Hann segist elska Mourinho en leikstíll hans henti ekki Manchester United.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×