Innlent

Samningafundur boðaður í kjaradeilu starfsmanna Rio Tinto Alcan

Sunna Karen Sigurþórsdóttir skrifar
„Auðvitað eru menn orðnir langþreyttir á þessu langa ferli,“ segir formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna.
„Auðvitað eru menn orðnir langþreyttir á þessu langa ferli,“ segir formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna. Vísir/Vilhelm
Boðað hefur verið til samningafundar í kjaradeilu starfsmanna Rio Tinto Alcan við fyrirtækið klukkan fjögur í dag. Ekki hefur verið fundað í deilunni síðan um miðjan síðasta mánuð þegar upp úr viðræðunum slitnaði.

Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna, segist verða að vera bjartsýnn en að forsendur séu þær sömu og áður.

„Þetta er náttúrulega mikil óvissa þessi fundur í dag. Það hafa svo sem engar forsendur breyst frá því það slitnaði upp úr þarna í desember en auðvitað verður maður að vera bjartsýnn og vænta þess að fyrirtækið komi með eitthvað nýtt útspil sem ætti að snúast um það að við ættum að fara að semja,“ segir Guðmundur.

„Þetta hefur bara eingöngu snúist um það að fyrirtækið hefur sett fram sína afarkosti og hafa ekkert verið tilbúnir að víkja frá þeim; það eru ekki samningar, það er bara einstefna,“ segir hann. 

Aðspurður segir hann að starfsmenn séu orðnir þreyttir. „Auðvitað eru menn orðnir langþreyttir á þessu langa ferli en ég get ekki upplifað annað en að menn eru tilbúnir að standa fast á sínu á móti og það stendur ekki á okkur að fara að semja ef menn ætla að koma að borðinu með því hugarfari.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×