Viðskipti innlent

Samkomulag um styrkingu stoða atvinnulífs á Þingeyri og Flateyri

Atli Ísleifsson skrifar
Um tuttugu ársstörf skapast við vinnslu bolfisks á Flateyri þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Valþjófur tekur við fasteignum og tækjum Arctic Odda á staðnum.
Um tuttugu ársstörf skapast við vinnslu bolfisks á Flateyri þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Valþjófur tekur við fasteignum og tækjum Arctic Odda á staðnum. Vísir/Anton
Arctic Oddi ehf., Valþjófur ehf. og Vísir hf. hafa gert með sér samkomulag sem þau segja styrkja til langframa stoðir atvinnulífsins á Flateyri og Þingeyri og eyði um leið þeirri óvissu sem verið hefur um atvinnustarfsemi á stöðunum að undanförnu.

Samkomulagið felst í því að Arctic Oddi muni flytja starfsemi sína frá Flateyri í húsnæði sem var í eigu Vísis á Þingeyri. „Þar mun fyrirtækið sinna vinnslu og pökkun á eldisfiski og sinna frekari uppbyggingu fyrir fiskeldi sitt. Starfsemin á Þingeyri kallar á um 15 störf í upphafi en þeim mun fjölga í hlutfalli við uppbyggingu fyrirtækisins,“ segir í tilkynningunni.

Þá segir að um tuttugu ársstörf skapist við vinnslu bolfisks á Flateyri þegar útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækið Valþjófur tekur við fasteignum og tækjum Arctic Odda á staðnum. Fyrirtækið muni einbeita sér að fullvinnslu bolfisks, bæði frá Flateyri og Þingeyri.

„Auk starfa hjá fyrirtækjunum tveimur má gera ráð fyrir að til verði nokkur fjöldi afleiddra starfa vegna margvíslegrar þjónustu við fyrirtækin. Þau störf leggja grunn að frekari atvinnuuppbyggingu á Vestfjörðum til lengri tíma litið.

Með þessu samkomulagi lýkur aðkomu Vísis að útgerð og vinnslu á Þingeyri sem félagið hefur staðið að síðustu 15 árin og traustir aðilar taka við áframhaldandi rekstri og uppbyggingu. Vísir mun stunda fiskvinnslu á Þingeyri fram í mars á næsta ári.

Samkomulagið er gert með fyrirvara um samþykki Byggðastofnunar sem gert er ráð fyrir að liggi fyrir um miðjan desember en stuðningur stofnunarinnar er mikilvægur til að skapa grundvöll fyrir starfsemi þar sem nægt hráefni, arðsemi og samkeppnishæfni skipta máli,“ segir í tilkynningunni.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×