Erlent

Samkomulag náðist ekki

Birta Björnsdóttir skrifar
Frestur til að ná samkomulagi um kjarnorkuáætlun Írana hefur verið framlengdur til loka júnímánaðar á næsta ári eftir að mistókst að ná heildarsamkomulagi um málið í Vínarborg í dag

Stórveldi á borð við Bandaríkin, Rússland, Kína og Þýskaland vilja að Íranir hætti kjarnorkutilraunum sínum alfarið og að í staðinn verði viðskiptabanni sem sett var á landið aflétt.

Íranir halda hinsvegar fast í þá afstöðu sína að kjarnorkuáætlunin sé aðeins í friðsömum tilgangi og að ekki standi til að framleiða kjarnavopn. Endanleg niðurstaða fékkst ekki eftir fundarlotu í Vínarborg undanfarna daga en viðræður halda áfram í desember.

Tólf ára drengur lést í gær eftir skotsár sem hann hlaut af hendi löreglumanns í Cleveland borg í Ohio á laugardag. Drengurinn hafði verið að leika sér á leikvelli með dótabyssu og ekki hlýtt fyrirmælum lögreglunnar um að setja hendur upp í loft. Rannsókn er hafin á málinu og hafa lögreglumennirnir verið sendir í leyfi.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem vinnubrögð lögreglunnar í Cleveland eru rannsökuð en árið 2012 endaði bílaeltingaleikur með dauða tveggja manna, en á meðan honum stóð skutu lögreglumenn alls 137 skotum af byssum sínum.

Að minnsta kosti fimmtíu manns eru látnir og fleiri tugir særðir eftir að sjálfsvígssprengjumaður sprengdi sjálfan sig í loft upp innan um áhorfendur á fjölmennum blakleik í austurhluta Afganistans í gær.

Ungmennamót stóð yfir á vellinum milli þriggja félaga í Paktika-héraði þegar árásin var gerð og tæplega helmingur látinna börn á aldrinum átta til fjórtán ára.




Tengdar fréttir

Óvíst að samkomulagi verði náð í kjarnorkuviðræðunum í Vínarborg

Lokafrestur í viðræðum Írans og fimm þjóða um kjarnorkumál Írana rennur út í Vínarborg í dag. Óvíst er hvort samkomulag náist og líklegt þykir að viðræður verði látnar halda áfram síðar. Bandaríkjamenn óttast sem fyrr að Íranar ætli að smíða kjarnorkuvopn.

Reynt til þrautar að ná samkomulagi um kjarnorkuáætlun Írana

Háttsettir diplómatar fjölmargra þjóða eru nú samankomnir í Vín í Austurríki þar sem þeir freista þess að ná samkomulagi um kjarnorkuáætlun Írana, en frestur til að ná slíkum samningum rennur út klukkan ellefu í kvöld að íslenskum tíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×