Innlent

Samkomulag í augsýn í kjaradeilu verslunarmanna og Flóabandalagsins

Höskuldur Kári Schram skrifar
Aukinnar bjartsýni gætir í kjaraviðræðum verslunarmanna og Flóabandalagsins við Samtök atvinnulífsins. Samninganefndir félaganna hafa fundað í húsnæði ríkissáttasemjara í allan dag og ekki er útilokað að hægt verði ganga frá samkomulagi áður en til verkfallsaðgerða kemur í næstu viku.

Mikil leynd hefur hvílt yfir samningaviðræðum en drög að samkomulagi voru rædd á stjórnarfundum félaganna nú síðdegis og verða væntanlega kynnt opinberlega síðar í kvöld.

Verkfallsaðgerðum félaganna sem áttu að hefjast síðar í þessari viku var frestað um fimm daga í gær og samkvæmt heimildum fréttastofu er markmiðið að reyna að ganga frá samkomlagi á næstu dögum.

Forystumenn félaganna hafa lítið viljað tjá sig um stöðu málsins í dag en fram hefur komið í fjölmiðlum að um sé að ræða samning til að minnsta kosti þriggja ára. Heimildir fréttastofa herma að það sé meðal annars til umræðu að fara blandaða leið sem felur í sér bæði krónutölu- og prósentuhækkun launa.

Félögin leggja þó áherslu á að stjórnvöld leggi sitt af mörkum til að liðka fyrir samningum. Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, segir að ríkisstjórnin horfi til húsnæðismála í þessu samhengi.

“Ég sé fyrir mér að aðgerðir í húsnæðismálum geti verið mikilvægur liður í því að binda saman niðurstöðu á vinnumarkaðinum. Það getur hugsanlega gerst með einhverjum aðgerðum sem verða lögfestar núna en það má líka sjá fyrir sér að það geti gerst á haustþinginu,“ segir Bjarni. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×